Erlent

Tugir þúsunda mótmæla Erdogan í Istanbúl

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mótmælendurnir halda meðal annars á skiltum þar sem stendur á adalet en það þýðir réttlæti.
Mótmælendurnir halda meðal annars á skiltum þar sem stendur á adalet en það þýðir réttlæti. Vísir/Getty
Tugir þúsunda almennir borgarar söfnuðust saman í Istanbúl í dag og tóku þátt í mótmælagöngu gegn ríkisstjórn Recep Tayyip Erdogan. Um var að ræða göngu sem hófst í höfuðborg landsins Ankara þann 15. júní síðastliðin og endar í Istanbúl. BBC greinir frá.

Gangan sem kölluð er „réttlætisgangan“ er skipulögð af stjórnarandstöðuflokknum CHP og er hún gengin til að mótmæla þeim hundruða brottrekstra og fangelsana sem ríkisstjórn Erdogan greip til í kjölfar misheppnaðar valdaránstilraunar í landinu í fyrra.

Rúmlega 50 þúsund manns hafa verið handteknir og 140 þúsund reknir úr opinberum stöðum í viðleitni ríkisstjórnarinnar til að berjast gegn þeim öflum sem hún telur að hafi staðið að baki valdaránstilrauninni.

Erdogan hefur sakað þá sem taka þátt í mótmælagöngunni um að styðja hryðjuverk og segir hann að CHP hafi farið út fyrir „eðlileg mörk stjórnarandstöðu“ og „styrki hryðjuverkasamtök í sessi gegn Tyrklandi.“

Kemal Kilicdaroglu, leiðtogi CHP, ýtti göngunni úr vör í síðasta mánuði eftir að þingmaður flokksins var handtekinn af lögreglunni vegna saka um að hafa lekið opinberum gögnum sem segja að ríkisstjórnin hafi selt vígamönnum í Sýrlandi vopn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×