Erlent

Katar mun sækjast eftir skaðabótum vegna viðskiptaþvinganna nágrannaríkjanna

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ríkissaksóknari Katar, Ali bin Fetais al-Marri á blaðamannafundinum þar sem hann lýsti yfir áætlunum stjórnvalda.
Ríkissaksóknari Katar, Ali bin Fetais al-Marri á blaðamannafundinum þar sem hann lýsti yfir áætlunum stjórnvalda. Vísir/AFP
Yfirvöld í Katar tilkynntu í dag að þau muni leita réttar síns vegna viðskiptaþvinganna fjögurra Arabaríkja sem skilið hafa landið eftir einangrað. Guardian greinir frá.

Um er að ræða Sádí-Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Barein og Egyptaland en löndin fjögur tilkynntu í síðasta mánuði ásamt Jemen að þau hefðu slitið stjórnmálasambandi við Katar vegna meints stuðnings Katara við hryðjuverkahópa. Mestu munar um Sádí-Arabíu en Katar er staðsett á skaga og á aðeins landamæri að því ríki.

Þá tilkynntu ríkin einnig umræddar viðskiptaþvinganir sem Katarar vilja nú fá bætur vegna en viðskiptaþvinganirnar hafa einnig náð til flutninga á fólki og hefur landamærum til Katar frá Sádí-Arabíu verið lokað og því erfitt að koma vörum til landsins.

Ríkissaksóknari Katar, Ali bin Fetais al-Marri, segir að yfirvöld þar í landi muni krefja ríkin fjögur um miskabætur vegna aðgerða sinna fyrir hönd fyrirtækja í landinu sem hafi stórskaðast vegna viðskiptaþvingananna. Sett verður upp sérstök aðgerðarmiðstöð til þess að taka á móti kröfum fyrirtækjaeigenda í Katar.

Ríkin fjögur hafa sjálf lagt fram eigin kröfur á hendur stjórnvöldum í Katar um miskabætur vegna þess sem þau kalla „afskipti stjórnvalda í Katar af innanlandsmálum þeirra.“

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Rex Tillerson, mun heimsækja Arabíuskaga næstkomandi mánudag en hann vonast til þess að geta miðlað málum á milli deiluaðila í samstarfi með Kúveit sem farið hefur fyrir því verkefni að undanförnu.


Tengdar fréttir

Katarar fá gálgafrest

Sádi-Arabía, auk þriggja annarra Arabaríkja, framlengdi í gær frestinn sem Katarar hafa til þess að svara þrettán kröfum ríkjanna um breytingar á stjórnarháttum. Fresturinn átti að renna út í gær en var framlengdur um tvo sólarhringa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×