Enski boltinn

Bjartsýnir á að Terry verði samherji Gylfa hjá Swansea

Tómas Þór Þórðarson skrifar
John Terry þarf að finna sér nýtt lið.
John Terry þarf að finna sér nýtt lið. vísir/getty
Swansea reynir nú allt hvað það getur að landa John Terry, fyrrverandi leikmanni Chelsea, en hann er án liðs eftir að binda endi á ótrúlegan feril sinn á Brúnni með Englandsmeistaratitli.

Swansea hefur verið í sambandi við bæði Terry og umboðsmann hans en Paul Clement, knattspyrnustjóri Swansea, ræddi við þá báða. Clement og Terry unnu saman hjá Chelsea þegar Clement var í þjálfaraliðinu þar.

„Ég veit að Paul er búinn að ræða við þá en ég veit ekki hvað Terry er að hugsa þar sem hann er með fjölskyldu. Við erum með fína miðverði en ég skil að Paul er áhugasamur um að fá hann. Stundum gengur svona upp og stundum ekki,“ segir Huw Jenkins, stjórnarformaður Swansea.

Terry er 36 ára en ætti svo sannarlega að geta hjálpað Swansea í varnarleiknum. Liðið fékk á sig 70 mörk á síðustu leiktíð eða næst flest mörk allra liða í deildinni. Aðeins Hull City fékk á sig fleiri mörk eða 80 talsins.

Terry hefur aldrei spilað fyrir annað félag en Chelsea í ensku úrvalsdeildinni. Hann spilaði í heildina 723 leiki fyrir liðið í öllum keppnum og vann 17 stóra titla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×