Íslenski boltinn

Pepsi-mörkin: Davíð Snorri missti vitið og Óskar Hrafn var ánægður með hann | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Davíð Snorri Jónasson, annar tveggja aðstoðarþjálfara Stjörnunnar í Pepsi-deild karla, tók alvöru æðiskast í tapleik Garðabæjarliðsins í Ólafsvík í gærkvöldi en fékk fyrir það hrós í Pepsi-mörkunum.

Stjarnan tapaði óvænt, 2-1, fyrir Ólsurum og er nú búin að tapa þremur leikjum í röð. Ólafsvíkingar voru harðir í horn að taka og létu vel finna fyrir sér en Davíð beindi spjótum sínum að varamannabekk heimamanna þar sem honum fannst Ólsarar vera helst til of duglegir að biðja um spjöld á leikmenn Stjörnunnar.

„Ekki kalla á leikmennina okkar. Hugsaðu bara um þína leikmenn og láttu leikmennina mína vera! Segðu honum að hætta að biðja um allt á okkar leikmenn!“ öskraði Davíð Snorri eins hátt og hann mögulega gat að varamannabekk Ólsara.

Aðalbjörn Heiðar Þorsteinsson, fjórði dómari leiksins, reyndi að róa Davíð Snorra en fékk gusuna í andlitið: Ég? Segðu honum að hætta! Hann hefur áhrif á allt sem þið eruð að gera!“

Þrátt fyrir að taka tryllinginn slapp Davíð Snorri með skrekkinn og þurfti ekki að víkja af bekknum.

„Ég er ánægður með Davíð Snorra þarna. Ég þoli ekki þjálfara sem að gapa og góla alla leikinn og reyna að hafa áhrif á dómarann,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson í Pepsi-mörkunum á Stöð 2 Sport HD í gærkvöldi.

Hörður Magnússon velti því þá upp hvort hann væri ekki að ganga ansi nálægt fjórða dómara leiksins.

„Hann lifir á brúninni, klárlega. Ég ætla ekki að fara að segja að það átti að gefa honum rautt spjald. Gleymdu því. Mér fannst þetta gott hjá honum,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson.

Allt innslagið má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×