Handbolti

Patrekur verður ekki þjálfari Rúnars

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Patrekur á hliðarlínunni með austurríska landsliðinu.
Patrekur á hliðarlínunni með austurríska landsliðinu. vísir/getty
Rúnar Kárason mun ekki fá Patrek Jóhannesson sem þjálfara en félag hans, Hannover-Burgdorf, hafði áhuga á að ráða Patrek sem þjálfara félagsins.

„Ég heyrði frá þeim og þegar gengur vel þá fær maður stundum fyrirspurnir,“ segir Patrekur en hann var að koma austurríska landsliðiðinu á EM í Króatíu.

Hannover lét Jens Bürkle fara sem þjálfara á dögunum enda stóð gengi félagsins á nýliðinni leiktíð ekki undir væntingum. Patrekur er tiltölulega nýbúinn að semja við Selfoss og hann ætlar að virða þann samning.

„Ég ætla að standa við þann samning þannig að ég er ekkert að fara. Auðvitað spáir maður samt í það þegar það koma tilboð upp á borðið. Minn tími kemur fyrir Þýskaland síðar. Ég er ánægður í þeim störfum sem ég er í núna og ætla að halda þeim áfram,“ segir Patrekur.

Patrekur er samningsbundinn austurríska landsliðinu til ársins 2020. Hann hefur einu sinni þjálfað í Þýskalandi er hann var með lið Emsdetten fyrir sjö árum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×