Enski boltinn

Wenger: Hefðum getað unnið Meistaradeildina 2006 ef myndbandstæknin hefði verið komin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wenger mótmælir dómi í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu árið 2006.
Wenger mótmælir dómi í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu árið 2006. vísir/epa
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, fagnar því að farið sé að nota myndbandstækni við dómgæslu. Hann segir að Arsenal hefði getað unnið Meistaradeild Evrópu fyrir 11 árum, ef myndbandstæknin hefði verið komin til sögunnar þá.

Myndbandstæknin er notuð í Álfukeppninni sem nú fer fram í Rússlandi og nú þegar hefur nokkrum dómum verið breytt með hjálp hennar.

Wenger segir að úrslitaleikur Arsenal og Barcelona í Meistaradeild Evrópu árið 2006 hefði getað endað öðruvísi ef myndbandstæknin hefði verið komin til sögunnar á þeim tíma.

Arsenal missti Jens Lehmann af velli með rautt spjald eftir aðeins 18 mínútur. Þrátt fyrir liðsmuninn komust Skytturnar yfir með marki Sols Campbell á 37. mínútu.

Arsenal hélt út fram á 76. mínútu þegar Samuel Eto'o jafnaði metin fyrir Barcelona. Fjórum mínútum síðar skoraði Juliano Belletti sigurmark Börsunga.

Þegar Wenger var beðinn um að nefna dóma sem hann hefði viljað breyta nefndi hann markið sem Eto'o skoraði.

„Ég myndi velja jöfnunarmarkið því það var rangstaða. Mig vantar þennan titil í safnið og fyrir mér er hann sá mikilvægasti,“ sagði Wenger sem skrifaði nýverið undir tveggja ára samning við Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×