Körfubolti

Nýjasti atvinnumaður Íslendinga sá fyrsta körfuboltaleikinn fyrir fjórum árum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Miðherjinn stóri og stæðilegi, Tryggvi Snær Hlinason, er sem kunnugt er genginn í raðir Spánarmeistara Valencia frá Þór Ak.

Tryggvi hefur náð ótrúlega langt á skömmum tíma en hann bara æft körfubolta í nokkur ár. Og það eru aðeins fjögur ár síðan hann sá körfuboltaleik í fyrsta sinn.

„Þetta er þriðja sumarið mitt þannig að ég er búinn að vera þrjú og hálft ár,“ sagði Tryggvi í samtali við Kjartan Atla Kjartansson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Ég fór í körfubolta til að halda mér í formi. Það var upphafið,“ bætti miðherjinn öflugi við.

Tryggvi segir að vistaskiptin til Valencia hafi átt sér nokkuð langan aðdraganda.

„Ég byrjaði að tala við þá síðasta sumar. Það var rólegt í vetur en stigmagnaðist eftir jólin. Síðustu tvær vikur hefur verið mikið í gangi,“ sagði Tryggvi sem skrifaði undir fjögurra ára samning við Valencia.

Jón Arnór Stefánsson lék með Valencia á þarsíðasta tímabili og hann benti forráðamönnum félagsins á Tryggva.

„Hann er í raun sá sem kynnti þá fyrir mér. Hann er ástæðan fyrir því að þeir vita af mér yfir höfuð. Hann hjálpaði mér í gegnum þetta allt og það er algjör snilld að hafa hann,“ sagði Tryggvi sem horfði í fyrsta sinn á körfuboltaleik fyrir fjórum árum. Það var leikur Njarðvíkur og Tindastóls í yngri flokkunum.

„Það var mjög skemmtilegt. Ég átti að spila með þeim og vissi ekkert hvernig körfubolti virkaði á þeim tíma. En það breyttist frekar hratt,“ sagði Tryggvi sem spilar núna með íslenska U-20 ára landsliðinu á æfingamóti sem fer fram hér á landi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×