Íslenski boltinn

Lauflétt hjá Blikum | Mexíkósk sveifla hjá Val

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fanndís skoraði tvö mörk gegn Grindavík.
Fanndís skoraði tvö mörk gegn Grindavík. vísir/eyþór
Heil umferð fór fram í Pepsi-deild kvenna í kvöld.

Þór/KA er með fullt hús stiga á toppi deildarinnar en Norðanstúlkur unnu 0-1 sigur á FH í Kaplakrika.

Þór/KA er með 27 stig, sex stigum á undan Breiðabliki sem rúllaði yfir Grindavík, 0-5.

Svava Rós Guðmundsdóttir og Fanndís Friðriksdóttir skoruðu báðar tvö mörk og Berglind Björg Þorvaldsdóttir var einnig á skotskónum.

Staðan var 0-3 í hálfleik og Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Blika, gat leyft sér að taka landsliðskonurnar Fanndísi, Ingibjörgu Sigurðardóttur og Rakel Hönnudóttir út af um miðjan seinni hálfleik.

Grindavík hefur nú tapað sex leikjum í röð með markatölunni 3-26. Liðið er samt ennþá í 8. sæti, tveimur stigum frá fallsæti.

Valur vann fimmta leikinn í röð þegar liðið rústaði KR með fimm mörkum gegn engu.

Það var mexíkósk sveifla hjá Val í kvöld en þær Anisa Raquel Guajardo og Ariana Caldero skoruðu tvö mörk hvor. Vesna Elísa Smiljkovic komst einnig á blað.

Valur er í 5. sæti deildarinnar með 18 stig. KR er í því sjöunda með sex stig.

Eftir tvo tapleiki í röð vann Stjarnan 1-0 sigur á Fylki. Agla María Albertsdóttir skoraði eina mark leiksins á 21. mínútu.

Harpa Þorsteinsdóttir var í byrjunarliði Stjörnunnar í fyrsta sinn á tímabilinu og lék fyrstu 74 mínúturnar.

Stjarnan er í 3. sæti deildarinnar með 19 stig. Fylkir, sem hefur ekki unnið síðan í 1. umferðinni, er í níunda og næstneðsta sætinu með fjögur stig.

Þá vann ÍBV 3-0 sigur á botnliði Hauka.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×