Enski boltinn

„Sláandi að árið 2017 sé Manchester United ekki með kvennalið“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fá konur að spila á Old Trafford í framtíðinni?
Fá konur að spila á Old Trafford í framtíðinni? vísir/getty
„Mér finnst það sláandi að árið 2017 sé félag á stærð við Manchester United ekki með kvennalið. Það sem er enn þá verra er að það er ekki einu sinni að skoða möguleikann á því almennilega.“

Svona hefst pistill Rachel Brown-Finnis, fyrrverandi landsliðsmarkverði Englands og sérfræðingi BBC, um þá staðreynd að stærsta félag Englands og eitt það stærsta í heiminum sé ekki með fótboltalið fyrir konur.

Brown-Finnis bendir á það að flest stærstu félög heims séu með kvennalið eða eru að setja slíkt lið á laggirnar. Real Madrid og Juventus, liðin sem léku til úrslita í Meistaradeildinni, eru bæði að byrja með kvennalið.

Þá þarf Manchester United ekki að horfa lengra en nokkra kílómetra frá Old Trafford þar sem Manchester City er búið að setja upp eitt besta kvennalið Evrópu. City gerir mikið úr kvennaliði sínu sem hefur náð langt á skömmum tíma.

„Hvort sem United horfir innanlands eða út fyrir landsteinanna þegar það er að bera sig saman við önnur félög sér það að það er að verða eftir á. Ég skil bara ekki hvers vegna,“ segir Brown-Finnis.

„Þegar fólk hefur talað um þetta áður hefur verið spurt hvernig eigi að gera þetta. Félag sem er svona stórt myndi svo sannarlega hjálpa til við að þróa kvennafótboltann.“

„United er að missa af auðveldri leið til að styrkja tengslin enn frekar við allar konurnar sem elska félagið og það sem skiptir máli er það að félagið er ekki að stuðla að mikilvægi kvenna hjá sér. Kvennalið myndi gera allt þetta fyrir Manchester United. Þetta yrði stór og góð eign sem kostar ekki mikið. Hvers vegna hugsar United öðruvísi en önnur lið? segir Rachel Brown-Finnis.

Í svari við fyrirspurn BBC segist United vera að skoða málin en kvennaliðið þar var lagt af árið 2005 af Glazer-feðgum sem höfðu engan áhuga á því að vera með slíkt lið. United er með frábæra yngri flokka fyrir stelpur upp að 16 ára aldri en eftir það verða þær að leita annað.

Allan pistilinn má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×