Handbolti

Atli Ævar á heimleið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Atli Ævar var valinn í úrvalslið sænsku úrvalsdeildarinnar tímabilið 2015-16.
Atli Ævar var valinn í úrvalslið sænsku úrvalsdeildarinnar tímabilið 2015-16. mynd/sävehof
Svo virðist sem ekkert lát sé á heimkomu atvinnumanna í Olís-deild karla í handbolta á næsta tímabili.

Atli Ævar Ingólfsson, sem var síðast á mála hjá Sävehof í Svíþjóð, er samkvæmt heimildum Vísis á heimleið. Ekki liggur þó enn fyrir hvaða lið verður fyrir valinu.

ÍBV leitar logandi ljósi að línumanni og þá eru Selfyssingar einnig í leit að manni á línuna. Samkvæmt heimildum Vísis hefur Akureyri, sem leikur í 1. deild, einnig boðið Atla Ævari samning.

Atli Ævar, sem er 29 ára, er uppalinn hjá Þór á Akureyri en gekk í raðir HK árið 2009. Atli Ævar hjálpaði HK að vinna fyrsta og eina Íslandsmeistaratitilinn í sögu félagsins 2012.

Eftir það tímabil hélt Atli Ævar í atvinnumennsku og lék fyrst í stað í Danmörku, með SönderjyskE og Nordsjælland.

Þaðan fór Atli Ævar til Eskilstuna Guif í Svíþjóð og svo til Sävehof. Hann var valinn í úrvalslið sænsku úrvalsdeildarinnar á þarsíðasta tímabili. Hann hefur leikið níu A-landsleiki.

Þráinn Orri Jónsson, línumaðurinn öflugi hjá Gróttu, ku einnig vera eftirsóttur af sterkustu liðum deildarinnar.

Þá er ekki útilokað að Valsmenn bæti við einum leikmanni til viðbótar og ef af verður er ekki ólíklegt að það verði línumaður.

Eins og frá var greint á Vísi fyrr í dag eru Snorri Steinn Guðjónsson og Árni Þór Sigtryggsson væntanlega á leið til Vals.


Tengdar fréttir

Aron: Verður gaman að prófa að búa í Eyjum

"Þetta er að koma flatt upp á fólk. Vinir mínir trúðu mér ekki einu sinni er ég sagðist vera að koma heim,“ segir landsliðsmarkvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson sem í dag skrifaði undir tveggja ára samning við ÍBV.

Aron Rafn kominn til ÍBV

Landsliðsmarkvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson er á heimleið og er búinn að skrifa undir tveggja ára samning við ÍBV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×