Skoðun

Hafið tekur ekki endalaust við

Björt Ólafsdóttir skrifar
Nýverið fór fram í New York hafráðstefna Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Þar voru saman komnir leiðtogar heims í umhverfisvernd og málefnum hafsins til að ræða leiðir til að hrinda í framkvæmd heimsmarkmiði SÞ nr. 14, sem lýtur að því að vernda hafið og nýta auðlindir þess á sjálfbæran hátt.

Undirrituð sótti ráðstefnuna ásamt sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, og undirstrikar það mikilvægi málefnisins fyrir Ísland og áhersluna sem ríkisstjórnin leggur á málið að tveir ráðherrar hafi tekið þátt í ráðstefnunni og ávarpað gesti hennar.

Á ráðstefnunni var rætt um loftslagsbreytingar af mannavöldum og hvernig þær valda hlýnun og súrnun sjávar.

Rannsóknir benda til þess að íshella suðurskautsins sé komin á það stig bráðnunar að erfitt verði að snúa við þeirri þróun. Ís norðurskautsins bráðnar einnig mjög hratt þar sem hlýnun þar er hraðari en á öðrum svæðum á jörðinni. Auk þess á sér stað mikil bráðnun Grænlandsjökuls. Þetta leiðir til hækkunar á sjávarborði sem gerir það að verkum að framtíð strandbyggða er mikilli óvissu háð.

Þá setur súrnun sjávar alla fæðukeðju hafsins í hættu. Fyrir þjóð eins og Íslendinga sem byggir afkomu sína á sjávarfangi og þar sem byggð er víðast hvar við ströndina er þessi þróun mikið áhyggjuefni.

Önnur ógn sem steðjar að heimshöfunum og fiskistofnunum er plastmengun í hafi. Gríðarlegt magn plastúrgangs berst í höfin og brotnar þar niður í örsmáar agnir, svokallað örplast, sem svo eru étnar af fiskum. Örplastið berst þannig ofar í fæðukeðjuna og í líkama okkar mannanna á endanum. Nú telja vísindamenn að eftir nokkra áratugi verði meira af plasti í hafinu en fiski.

Í tengslum við ráðstefnuna hafa þjóðir heims, Ísland þar á meðal, tilkynnt um hvernig þær hyggist stuðla að því markmiði að vernda hafið.

Stórt hagsmunamál fyrir Ísland

Á ráðstefnunni var einnig hrint af stað átaki Umhverfisstofnunar SÞ gegn úrgangi í hafi, sem fengið hefur yfirskriftina #CleanSeas. Átakinu er ætlað að hvetja stjórnvöld, fyrirtæki og almenning til aðgerða sem stuðla að hreinni höfum og var Ísland m.a. ein þeirra þjóða á ráðstefnunni sem skrifuðu undir viljayfirlýsingu um að stefna að því að banna örplast í snyrtivörum.

Í ávarpi mínu á ráðstefnunni gerði ég að umtalsefni hversu háðir Íslendingar eru náttúrunni og hafinu, þar sem fiskveiðar eru grundvallaratvinnuvegur þjóðarinnar. Jafnframt lagði ég áherslu á að íslensk stjórnvöld stefndu að því að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum með fjölþættum aðgerðum. Þær munu leggja lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og þar með hlýnun og súrnun sjávar.

Heilbrigt haf er stórt hagsmunamál fyrir Ísland. Með markvissum aðgerðum og aukinni umhverfisvitund getum við sýnt gott fordæmi við að vernda hafið og nýta auðlindir þess á sjálfbæran hátt. Við þurfum að draga úr þeim úrgangi sem berst í hafið og minnka verulega losun gróðurhúsalofttegunda sem auka súrnun þess og hækka sjávarstöðuna.

Því hafið tekur ekki endalaust við.

 

Höfundur er umhverfis- og auðlindaráðherra.




Skoðun

Sjá meira


×