Innlent

Meirihlutamenn mæta illa á fundi og boða ekki varamenn í staðinn

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Fulltrúi Á-listans í umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar hefur ekki mætt á sex af sjö fundum ráðsins frá áramótum.
Fulltrúi Á-listans í umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar hefur ekki mætt á sex af sjö fundum ráðsins frá áramótum. vísir/gva
„Þrátt fyrir slaka mætingu nefndarmanna meirihlutans á fundi heyrir nánast til undantekninga að varamenn þeirra séu boðaðir í staðinn,“ segja fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn Reykjanesbæjar sem gagnrýna „ afar slaka mætingu“ fulltrúa meirihlutans á fundi í umhverfis- og skipulagsráði.

„Fyrir utan formann nefndarinnar, sem hefur sinnt sínum verkefnum með ágætum, skipar meirihluti bæjarstjórnar tvo nefndarmenn í umhverfis- og skipulagsráð. Hefur annar þeirra um 60 prósent mætingarhlutfall á fundi þessa árs en hinn aðeins innan við 15 prósent,“ bókuðu bæjarfulltrúar minnihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Bent er á að á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs hafi aðeins einn af þremur fulltrúum meirihlutans mætt og verið þar ásamt þeim tveimur fulltrúum sem minnihlutinn á í ráðinu sem gegni mjög mikilvægu hlutverki í stjórnsýslunni.

„Á það ekki síst við á uppbyggingartímum eins og nú er, þegar byggingarframkvæmdir íbúðarhúsnæðis eru í blóma auk framkvæmda við iðnaðarsvæðið í Helguvík, óskir um breytingar á skipulagi eru fjölmargar og vinna við aðal- og deiliskipulag stendur yfir,“ segja minnihlutafulltrúarnir og skora á meirihlutann að tryggja að þeir fulltrúar sem skipaðir séu til að sinna verkefninu geri það eða boði varamenn ella.

Fulltrúarnir tveir sem um ræðir svöruðu ekki fyrirspurn frá Fréttablaðinu í gær. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×