Erlent

Hafa stöðvað útbreiðslu skógareldanna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Slökkviliðsmenn í Vale da Ponte.
Slökkviliðsmenn í Vale da Ponte. Nordicphotos/AFP
Útbreiðsla skógarelda sem urðu 64 að bana í Portúgal um helgina hefur verið stöðvuð. Frá þessu greindu portúgölsk stjórnvöld í gær.

„Eldhafið breiðir ekki lengur úr sér,“ sagði Vitor Vaz Pinto, talsmaður almannavarna, í samtali við AP í gær og bætti því við að hundruð slökkviliðsmanna væru á vettvangi til að koma í veg fyrir að eldhafið breiddi úr sér á ný. Búist var við því að það tækist að slökkva eldana að fullu í nótt.

Frá því á laugardag hafa rúmlega þúsund slökkviliðsmenn og á annan tug flugvéla barist við eldana um mitt land, eða 150 kílómetrum frá höfuðborginni Lissabon. Lækkandi hiti og minni vindur hjálpuðu slökkviliði við starf sitt í gær. Þá söfnuðust ráðherrar og þingmenn saman fyrir utan þinghúsið í Lissabon upp úr hádegi í gær til að minnast fórnarlambanna en nú þegar hefur þjóðarsorg ríkt í Portúgal í þrjá daga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×