Erlent

Lögreglumaður stunginn í hálsinn á flugvelli í Michigan

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bandaríska alríkislögreglan rannsakar málið sem mögulegt hryðjuverk. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Bandaríska alríkislögreglan rannsakar málið sem mögulegt hryðjuverk. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Lögreglumaður var stunginn í hálsinn á flugvelli í Michigan-fylki í Bandaríkjunum í dag. Bandaríska alríkislögreglan rannsakar málið sem mögulegt hryðjuverk en árásarmaðurinn er Kanadamaður.

Alþjóðlegi Bishop-flugvöllurinn í bænum Flint í Michigan-fylki í Bandaraíkjunum var rýmdur eftir að maður, sem síðar var nafngreindur sem Amor Ftouhi frá Quebec í Kanada, stakk lögreglumann á flugvellinum í hálsinn með hnífi. Samkvæmt frétt AP-fréttaveitunnar er Ftouhi sagður hafa hrópað „Allahu akbar“ er hann réðist til atlögu.

Talsmenn Bandarísku Alríkislögreglunnar, FBI, sem fara nú með rannsókn málsins, segja enn fremur að Ftouhi hafði sagt eitthvað á borð við „þið hafið drepið fólk í Sýrlandi, Írak og Afganistan og við munum öll deyja,“ er hann framdi voðaverkið. Hann var síðar leiddur á brott af lögreglu. Ástand lögregluþjónsins sem Ftouhi stakk er nú stöðugt.

Flugvöllurinn var rýmdur rétt um klukkn 10 fyrir hádegi að staðartíma. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið látinn vita af stunguárásinni.

Engin frekari hætta er talin vera á ferðum en embættismenn hyggjast nú gera „aukalegar varúðarráðstafanir“ í kjölfar árásarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×