Lífið

Fasteignir drauma þinna

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Feitustu bitarnir á fasteignamarkaðnum í dag.
Feitustu bitarnir á fasteignamarkaðnum í dag.
Fasteignabólan er algengasti frasinn þessa dagana og fólk talar ekki um annað en sölu og kaup íbúða, Airbnb og húsnæðislán. Lífið birtir hér á þessum síðum handhægan leiðarvísi fyrir þá sem eru að leita - eða jafnvel þá sem láta sig bara dreyma.

Vesturbæingurinn

Ránargata 18 – 220.000.000

Ægifagurt einbýlishús, íslensk steinsteypuklassík sem hefur verið notuð sem skrifstofa en gæti hæglega verið breytt í blautan draum innlitsþáttastjórnandans. Það þarf ekkert nema hjól, vaxjakka og skeggolíu og þetta er „golden.“

Djammarinn þyrfti ekki að fara út úr húsi til að taka stöðuna á djamminu.

Konungur miðbæjarins

Bankastræti 11 – 135.000.000

Ertu djammari með nokkrar kúlur á bankabókinni?

Þá liggur beinast við að kaupa sér íbúð í hjarta miðbæjarins þar sem þú bókstaflega sérð hvað margir og hverjir eru í röðinni á B5 – ekki að þú þurfir að bíða í röð þar.

Þarna væri hægt að dúndra í nokkur ágæt skáldverk.

Listamannavillan

Bergstaðastræti 81 – 230.000.000

Ef þú ert búin/nn að selja milljónir eintaka af nýju skáldsögunni þinni eða meika það sem listamaður „worldwide“ er þriggja hæða einbýlishús á Bergstaðastræti það sem þú ættir að eyða peningunum þínum í, klárt mál.

Það hríslast alveg um mann nostalgían þegar maður sér þetta gullfallega hús.

Nostalgíu paradísin

Fáfnisnes 3 – 125.000.000

Nútíminn er algjört rusl og þá er best að hverfa inn í nostalgíu horfinna tíma (sem líklega voru aldrei til nema í fantasíum).

Fegursta hús Reykjavíkur 1973 gæti orkað sem tímavél fyrir retro dýrkandann og ekki er verra að þetta meistarastykki er staðsett í Skerjafirðinum.

Já, það er timburklætt gufubað þarna.

Skuggahverfið er SVO góðærið hið fyrra.

Nýríka pakk

Skuggahverfið, Lindargata 39 – 229.000.000

Í höfði hvers bankamanns sem kom „úr engu“ má finna drauminn að búa í íbúð hátt uppi í Skuggahverfinu þar sem lyftan opnast beint inn til þín og algjöra félagslega einangrun er að finna í þakgarðinum.

Reyndar er þetta bara næst efsta hæðin – en það ætti að halda manni á tánum.

Bankastjóri af gamla skólanum í teinóttum jakkafötum myndi sóma sig vel hérna.

Bankastjórinn

Laugarásvegur 60 – tilboð

Það er algjörlega galið að vera bankastjóri og búa ekki á Laugarásvegi. Það er svokallaður „no brainer.“

Þetta stórglæsilega hús er til sölu og það má búast við að fyrir utan það sé sægur Land Cruiser jeppa í klessó upp á hver hreppir gripinn.

Arnarnesið er draumurinn, hjá sumum.

Íslenski draumurinn

Kríunes 4 – 124.900.000

Ahh Arnarnesið, þangað sem ríka fólkið fer til að deyja. Þetta risastóra gímald er í boði fyrir einungis rétt yfir hundrað kúlur, sem eru líklega smámunir fyrir alla sem ætla sér að flytja á Arnarnesið.

Gallinn er samt sá að ísbíltúr íbúa höfuðborgasvæðisins fer fram fyrir framan húsið þitt en það verður líklega búið að loka Arnarnesinu með hliði innan skamms svo að það ætti að sleppa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×