Skoðun

Blautur sandur á sakavottorðið

Daníel Þórarinsson skrifar
Á Íslandi er sandur eða möl eða mold víðast auðfengin, sérstaklega ef þú getur sjálfur séð um flutninginn. Oftast þarf að greiða eitthvað fyrir en sjaldnast þannig að dýrt þyki. Mig vantaði sand um daginn og fór að sækja hann hjá bónda sem á land að Hvítá í Borgarfirði. Vatnshæð í ánni fylgir sjávarföllum og því hægt að sækja sand niður í voginn þegar fellur úr honum. Það var auðsótt að fá sandinn og bóndinn tók lítið fyrir ómakið að moka á kerruna mína. Ég á myndarlega tveggja hásinga kerru, sem má bera 2.400 kg, og við reyndum að áætla hvenær passlega væri hlaðin kerran.

Ég ók svo af stað og fann þá að hlassið væri sennilega ívið þyngra en við töldum vegna þess hvað sandurinn var blautur. Átti þó ekki von á að það skipti neinu stórmáli. Það var ekki langt, sem ég þurfti að keyra, bíll og kerra virtust ráða bærilega við þetta og ég átti ekki von á neinum vandkvæðum. En þar hafði ég rangt fyrir mér, það var nefnilega þarna sem ég varð glæpamaður.

Rétt áður en ég komst á áfangastað sá ég blá ljós fyrir aftan mig á veginum og hugsaði með mér að eitthvað hlyti að hafa komið fyrir ofar í dalnum. Svo var þó ekki, vegalögreglan vildi ræða við mig og vigta kerruna. Ég sagði það sjálfsagt og átti ekki von á að það hefði alvarleg eftirköst þó að ég væri með eitthvað umfram leyfilegt magn af sandi á kerrunni. Hafði að vísu heyrt að þungaflutningabílar væru stundum sektaðir fyrir of þungan farm. Til að gera langa sögu stutta kom í ljós að ég var með 600 kg of mikið á framhásingu kerrunnar, sem má bera 1.750 kg. Við þessu eru sektarákvæði, sem miðast að vísu ekki við þungann, sem er umfram, heldur hve mörg prósent umframþunginn er.

Þetta var 34% umfram hjá mér og við því er sekt upp á kr. 160.000. Það samsvarar 270 krónum á hvert kíló af sandinum. Mér var öllum lokið, en þetta átti eftir að versna. Sektir yfir kr. 100.000 eru settar á sakavottorð manna. Ég var því orðinn afbrotamaður með óhreint sakavottorð. Hvernig getur það staðist að einstaklingur lendi í slíkum hremmingum í íslenska réttarkerfinu? Að sækja sér sand í kerru hafi þessar afleiðingar og beri svo þung viðurlög? Er refsigleðin ekki helst til mikil? Eru þær reglur, sem lögreglan þarf að fara eftir, ekki hróplega óréttlátar?

 

Höfundur er skógarbóndi.




Skoðun

Sjá meira


×