Lífið

Myndi seint teljast skvísa

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Með loðkraga um hálsinn eru Sólborgu allir vegir færir. Hún kaupir sér oftast klæði í Gallerý Keflavík, tískuverslun í heimabæ hennar á Suðurnesjum. Hér er hún í hvítum jakka úr þeirri búð og með loðkraga frá Zöru.
Með loðkraga um hálsinn eru Sólborgu allir vegir færir. Hún kaupir sér oftast klæði í Gallerý Keflavík, tískuverslun í heimabæ hennar á Suðurnesjum. Hér er hún í hvítum jakka úr þeirri búð og með loðkraga frá Zöru. MYNDIR/SIGRÍÐUR GUÐBRANDSDÓTTIR
Blaðakonan Sólborg Guðbrandsdóttir er hjartahlýr töffari þegar kemur að stíl og lífsviðhorfi. Hún gaf út lagið Skies in Paradise í sumarbyrjun.

Hver ertu og hvaðan?


Ég er tvítugur Keflvíkingur og mitt hjartans mál er að allir fái sömu tækifæri í lífinu. Þar til ævigöngunni lýkur mun ég að leggja mig fram við að koma í veg fyrir óréttlæti. Ein manneskja getur nefnilega breytt heiminum til hins betra og það er gott að minna sig á það.

Hvernig myndirðu lýsa eigin stíl?

Ætli hann sé ekki mitt á milli þess að líta út fyrir að vera á leiðinni að ræna banka og að heimsækja tengdaforeldrana í fyrsta skipti. Mér finnst ég alltaf sætust þegar ég klæðist flíkum sem eru um það bil þremur númerum of stórar. Ég myndi seint telja mig vera skvísu; ég er töffari.

Hvernig ræktarðu líkamann?

Ég fer í ræktina og borða hollt.

Uppáhaldsbúð til að kaupa sér föt í?

Gallerý Keflavík. Þar fást falleg föt og þar vinnur yndislegt og hjálplegt starfsfólk. Annars kaupi ég óþarflega mikið af fötum hér heima miðað við verðlag en í útlöndum kaupi ég mest í H&M og Zöru og finnst líka fínt að gramsa í vintage-búðum.

 

Svarti jakkinn úr Spúútnik er nýjasta flíkin í fataskáp Sólborgar. Síð peysan úr Gallerý Keflavík og skórnir úr GS-skóm.
Áttu þér fyrirmynd úr tískuheiminum?

Enga eina, en ég dáist að fólki sem klæðir sig öðruvísi en heildin.

Hvað er það nýjasta í fataskápnum?

Jakkar úr Spúútnik sem ég keypti mér fyrir Secret Solstice.

Hvað er ómissandi í snyrtibuddunni?

Í minni er það maskari.

Hvaða ilmvatn notar þú?

Ég hef notað Hypnotic Poison frá Dior í mörg ár og sakna þess þegar ég á það ekki til.

Ertu mikið fyrir skart og fylgihluti?

Ég á mér uppáhaldshring frá Sign sem ég nota við öll möguleg tilefni. Hann var gjöf frá mér til mín eftir að hafa staðið mig vel. Ég nota líka mikið af stórum eyrnalokkum og mér þykja stórir og áberandi skartgripir flottir.

Hverju klæðistu þegar þú vilt vera sérstaklega fín? Þá klæðist ég lekkerum gerviloðkrögum. Með þá um hálsinn eru mér allir vegir færir.





Þessi fallegi hringur frá Sign er í miklu dálæti hjá Sólborgu. Hann var gjöf frá henni sjálfri til sjálfrar sín þegar henni fannst hún hafa staðið sig vel.
Uppáhaldsklæðin þín?

Ég neyðist til að tilnefna nokkrar leðurbuxur frá H&M sem allar eiga sameiginlegt að vera smám saman að rifna í klofinu. Ég kúri meira að segja í þeim í rúminu, sem ætti að vera óleyfilegt.

Stærsta tískuklúðrið?

Á síðustu árum grunnskólans notaði ég svartan augnblýant í augabrúnirnar og plokkaði þær nánast af. Á þeim tíma þóttu línuritaðar augabrúnir víst alveg æðislegar. Mikil gleði, mikið gaman.

Spáirðu mikið í tísku og útlit?

Ég væri að ljúga ef ég neitaði því. Ætli það sé ekki býsna erfitt að komast hjá því á tímum samfélagsmiðla. Það er þó gott að minna sig á það öðru hvoru að glansmyndin sem maður fylgist með á netinu er ekki raunveruleg og að Photoshop blekki. Mér finnst þó gaman að hafa mig til og gera mig fína og finnst skemmtilegt að „tískan“ fari í hringi.

Besta bjútíráðið þitt?

Að vera í kringum fólk sem hefur góð áhrif á mann og hvetur mann áfram. Maður dafnar mest og er fallegastur þegar maður er hamingjusamur. Þá mæli ég með því að vera góður við aðra og hjálpa eins mikið og maður mögulega getur. Fallegasta fólkið í mínu lífi er það sem hefur verið til staðar fyrir mig á erfiðum stundum, með allar sínar fellingar og bólur.

Skiptir ytra útlit raunverulegu máli?

Fegurð er ómælanlegt hugtak og einstaklingsbundið hvað hverjum finnst fallegt. Þegar upp er staðið skiptir ytra útlit engu. Persónulega legg ég meira upp úr því að vera góð manneskja en falleg og finnst að við sem samfélag ættum að hvetja einstaklinga til að vera duglegir og góðir frekar en fallegir og fínir. 

Þá finnst mér sérstaklega slæmt að gefa ungmennum skilaboð um að það sé í lagi að dæma fólk eftir útliti og flokka eftir úreltum stöðlum um fegurð. Það er ljótt að dæma fólk eftir útliti og magnað þegar fólk leyfir sér að setjast á þann háa hest. Samfélagið ætti líka að fordæma fegurðarsamkeppnir. Fegurð er fólgin í fjölbreytileikanum.

 

Camouflage-jakkann keypti Sólborg sér í Spúútnik fyrir tónlistarhátíðina Secret Solstice í sumar. Síð peysan og strigaskórnir eru frá Gallerý Keflavík.
Hvað ertu að fást við?

Ég starfa sem blaðamaður fyrir Víkurfréttir á Suðurnesjum. Mér finnst mikilvægt að nota þann vettvang til að láta gott af mér leiða og fræða fólk um ýmis málefni. Ég hef meðal annars fjallað um hinseginleika, trúfrelsi og andleg veikindi. Þessa dagana vinn ég líka að verkefninu „Fávitar“ með Styrmi Barkarsyni og sem hægt er að fylgjast með á Facebook og Instagram. Þar vörpum við ljósi á kynferðislega áreitni sem Íslendingar verða fyrir á netinu og komum vonandi umræðu af stað. Þegar ég er svo ekki að rífa kjaft sem ég tónlist og hef í hyggju að gefa út fleiri lög á næstu mánuðum.

Hvað dreymir þig um?

Mig dreymir um að vinna af mér rassgatið og ná þannig öllum mínum markmiðum í lífinu. Mig dreymir um að vera eins hamingjusöm og ég get mögulega orðið og að enda þetta líf sátt með það sem ég hef afrekað.

Hvað er fram undan hjá þér?

Fram undan er hörku vinna. Ég er rétt að byrja með mínar áætlanir. Ég ætla að vera óhrædd við að prófa nýja hluti, safna peningum og upplifa alls konar ævintýri. Ég get ekki beðið!

Hvað ætlar þú að gera í sumar? Ég ætla að njóta lífsins með mínum nánustu. Þau eru best.

Smelltu hér til að sjá og heyra nýja lagið hennar Sólborgar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×