Enski boltinn

Schmeichel dreymir um að sjá soninn hjá United

Kasper Schmeichel er einn af betri markvörðum ensku úrvalsdeildarinnar.
Kasper Schmeichel er einn af betri markvörðum ensku úrvalsdeildarinnar. vísir/getty
Peter Schmeichel, fyrrverandi markvörður Manchester United, viðurkennir að það yrði draumi líkast að sjá son sinn Kasper Schmeichel spila fyrir United.

Kasper hefur verið orðaður sem staðgengill Davids De Gea fari svo að Spánverjinn verði seldur til Real Madrid en Spánarmeistararnir virðast staðráðnir í að landa markverðinum fyrr en síðar.

Peter Schmeichel spilaði í átta ár með Manchester United og vann ensku úrvalsdeildina fimm sinnum og Meistaradeildina einu sinni. Hann er af flestum talinn besti markvörður í sögu félagsins.

„Það væri draumur að sjá Kasper hjá United,“ segir Schmeichel í við talkSPORT en Kasper varð Englandsmeistari með Leicester í fyrra og spilaði vel í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð.

„Ef ég reyni að taka það frá að ég sé hlutdrægur vegna þess að ég er faðir hans finnst mér hann hafa staðið sig vel. Mér finnst hann vera búinn að sýna það að hann getur spilað á stærsta sviðinu.“

„Sumir efuðust um hvort hann væri nógu góður fyrir úrvalsdeildina en hann er búinn að afsanna það og líka í Meistaradeildinni. Ef einhverju félagi vantar mjög góðan markvörð er Kasper maður sem hægt er að treysta á,“ segir Peter Schmeichel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×