Innlent

Fyrrverandi starfsmaður Landsbankans ákærður fyrir tug milljóna króna fjárdrátt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Konan starfaði í höfuðstöðvum Landsbankans í Austurstræti.
Konan starfaði í höfuðstöðvum Landsbankans í Austurstræti. Vísir/Andri Marínó
Héraðssaksóknari hefur ákært konu á sextugsaldri fyrir tug milljóna fjárdrátt á meðan hún starfaði á fjármálasviði Landsbankans. Málið verður þingfest á morgun en Vísir sagði fyrst frá því í nóvember á síðasta ári. Þá hafði konan verið rekin frá bankanum.

Alls nemur upphæðin um 33,5 milljónum króna en samkvæmt ákæru hófst fjárdrátturinn í desember 2013 og lauk ekki fyrr en í september á síðasta ári.

Í fyrsta lið ákærunnar er konan sökuð um að hafa að hafa millifært um 11,7 milljónir króna frá því í desember 2013 til nóvember 2014 af bankareikningi Landsbankans og yfir á bankareikning eiginmanns hennar sem nú er látinn. Lét konan líta út fyrir að Landsbankinn og Reykjavíkurborg væru að greiða kröfur til eiginmannsins en kröfurnar voru tilhæfulausar að því er segir í ákæru.

 

Annar liður ákærunnar snýr að 21,8 milljónum króna sem konan millifærði af reikningi bankans og yfir á reiknings eiginmannsins en hann var látinn. Þessi brot voru framin frá því í mars 2015 og þar til í september í fyrra en konan lét líta út fyrir að að ýmis fyrirtæki og stofnanir væru að greiða kröfur til mannsins hennar. Kröfurnar voru hins vegar tilhæfulausar.

Þá er konan jafnframt ákærð fyrir peningaþvætti auk þess sem Landsbankinn krefst skaðabóta frá henni að þeirri upphæð sem hún er ákærð fyrir að stela auk vaxta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×