Erlent

Enska biskupakirkjan hylmdi yfir með barnaníðingi

Kjartan Kjartansson skrifar
Justin Welby, erkibiskup af Kantaraborg, (f.m.) hefur beðist afsökunar á framferði kirkjunnar í garð fórnarlamba kynferðisofbeldis.
Justin Welby, erkibiskup af Kantaraborg, (f.m.) hefur beðist afsökunar á framferði kirkjunnar í garð fórnarlamba kynferðisofbeldis. Vísir/EPA
Æðstu ráðamenn ensku biskupakirkjunnar hylmdu yfir með fyrrverandi biskupi sem misnotaði drengi og karlmenn kynferðislega í tuttugu ár. Þetta er niðurstaða sjálfstæðrar rannsóknarnefndar.

Peter Ball var biskup í Gloucester og Lewes. Hann hóf fangelsisafplánun í október 2015 eftir að hann var sakfelldur fyrir að hafa misnotað átján unga menn á aldrinum 17-25 ára sem höfðu leitað til hans frá 1977 til 1992. Hann afplánaði sextán mánuði og var sleppt í febrúar, að því er er kemur fram í frétt The Guardian.

Biskupakirkjan er hins vegar sökuð um að hafa ekki brugðist rétt við brotum hans ítrekað yfir margra ára tímabil. Stjórnendur kirkjunnar virtust hafa haft meiri áhuga á að verja sjálfa sig en að sýna fórnarlömbum Ball samúð.

„Óafsakanleg“ og „hneykslanleg“ hegðun

Tveir fyrrverandi erkibiskupar af Kantaraborg, æðstu biskupar kirkjunnar, eru sérstaklega gagnrýndir fyrir að hafa brugðist í máli Ball.

„Kirkjan lagði á ráðin og hylmdi yfir frekar en að reyna að hjálpa þeim sem voru nógu hugrakkir til að stíga fram. Þetta er óafsakanlegt og hneykslanleg hegðun,“ segir Justin Welby, núverandi erkibiskup af Kantaraborg.

Bað hann fórnarlömb Ball afsökunar á framferði kirkjunnar þjóna.

Hátt settir embættismenn skrifuðu til stuðnings biskupinum

Á meðal þess sem kom fram við réttarhöldin yfir Ball á sínum tíma var að fjöldi hátt settra embættismanna, þar á meðal fyrrverandi erkibiskupinn George Carey, ónefndur meðlimur konungsfjölskyldunnar, ráðherrar og dómari hafi skrifað lögreglunni og saksóknurum til stuðnings Ball þegar ásakanir um kynferðislega misnotkun voru fyrst settar fram gegn honum árið 1993.

Lögreglan sleppti Ball þá með viðvörun og hélt hann áfram störfum sem biskup. Eftir að hann lét af því embætti hélt hann áfram störfum í sautján opinberum skólum tiæ ársins 2007. Mál hans voru tekin aftur til rannsóknar árið 2012 og var hann þá sakfelldur.

Neil Todd, fyrsta fórnarlamb Ball sem kom fram opinberlega, svipti sig lífi árið 2012 eftir þrjár fyrir sjálfsvígstilraunir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×