Erlent

Repúblikanar byrja að afhjúpa heilbrigðistryggingafrumvarp sitt

Kjartan Kjartansson skrifar
Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, (í pontu) hefur verið gagnrýndur fyrir að reyna að lauma heilbrigðistryggingafrumvarpinu í gegnum þingið.
Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, (í pontu) hefur verið gagnrýndur fyrir að reyna að lauma heilbrigðistryggingafrumvarpinu í gegnum þingið. Vísir/AFP
Öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins birtu í dag drög að frumvarpi að nýjum heilbrigðistryggingalögum eftir nokkurra vikna baktjaldamakk. Demókratar eru ósáttir við hversu skamman tíma þingmenn fá til að fara yfir frumvarpið.

Mikil leynd hefur hvílt yfir vinnu öldungadeildarþingmanna við heilbrigðistryggingafrumvarpið sem á að koma í staðinn fyrir lögin sem Barack Obama, fyrrverandi forseti, setti og hafa verið kennd við.

Þannig hefur meirihluti þingmanna flokksins sjálfs ekki fengið að vita hvað það felur í sér nákvæmlega.

Leiðtogi demókrata kallar frumvarpið „illkvittið og miskunnarlaust“

Fyrstu fréttir af drögunum sem lögð voru fram í dag benda til þess að framlög til Medicaid, opinberra sjúkratrygginga, verði skert enn meira en í frumvarpi fulltrúadeildarinnar, fjárveitingar til fóstureyðinga verði afnumdar í eitt ár nema í einstaka undantekningartilfellum og skattur sem lagður var á til að fjármagna Obamacare verði afnuminn frá og með áramótum.

Fulltrúar demókrata hafa þegar gagnrýnt frumvarpið harkalega. Nancy Pelosi, leiðtogi þeirra í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, segir frumvarpið „illkvittið og miskunnarlaust“ samkvæmt Washington Post. Milljónir Bandaríkjamanna muni missa sjúkratryggingu sína verði það samþykkt.

Útlit er fyrir að mat fjármálaskrifstofu Bandaríkjaþings á kostnaði og áhrifum frumvarpsins gæti legið fyrir strax á morgun. Mat þess á frumvarpinu sem fulltrúadeildin samþykkti í síðasta mánuði var að 23 milljónir Bandaríkjamanna til viðbótar yrðu án trygginga árið 2026.

Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni, vitnaði til orða sem voru höfð eftir Donald Trump forseta um að frumvarp repúblikana væri illkvittið.Vísir/AFP
Gríðarlega óvinsælt á meðal Bandaríkjamanna

Þó að enginn hafi vitað hvað væri nákvæmlega í nýjustu útgáfu frumvarpsins fram að þessu er það afar óvinsælt á meðal Bandaríkjamanna. Skoðanakannanir sem New York Times tók saman leiða meðal annars í ljós að ekki er meirihlutastuðningur við það í neinu ríkja Bandaríkjanna.

Meðferð þingmeirihluta repúblikana á málinu hefur sætt harðri gagnrýni. Farið hefur verið með innihald frumvarpsdraganna sem mannsmorð fram að þessu. Engin vitni hafa verið kölluð fyrir þingnefndir til að leggja mat á innihald þess né hafa demókratar fengið tækifæri til að ræða það í þinginu.

Það eru ekki aðeins stjórnarandstæðingar sem gagnrýna framferði repúblikana. Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmaður flokksins frá Alaska, sagði við blaðamann í morgun að hún hefði ekki séð texta frumvarpsins vegna þess að hún væri „hvorki blaðamaður né fulltrúi þrýstihóps“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×