Innlent

Fjármálaráðherra fordæmdur á Facebook

Jakob Bjarnar skrifar
Sótt er að Benedikt úr öllum áttum, fáum virðist hugnast aðferðir hans í baráttunni við skattsvik.
Sótt er að Benedikt úr öllum áttum, fáum virðist hugnast aðferðir hans í baráttunni við skattsvik.
Viðbrögð við fréttum af áformum Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar og fjármálaráðherra, um að leggja niður 5 og 10 þúsund króna seðilinn eru afar hörð á samfélagsmiðlum. Á Facebook er Benedikt bókstaflega úthrópaður. Spjótin standa á fjármálaráðherra úr öllum áttum, allt frá Teiti Birni Einarssyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins til Gunnars Smára Egilssonar stofnanda Sósíalistaflokksins.

Þá er ónefnd könnun Vísis, sem fjölmargir hafa tekið þátt í og sýnir að um afar óvinsæla aðgerð er að ræða. Rúm 85 prósent eru ósátt við það að takmarka eigi notkun reiðufjár.

Gagnrýnin er einkum af tvennum toga: Að hér sé verið að stórefla viðskipti kreditkortaþjónustufyrirtækja, en eignarhald Borgunar er einmitt tengt fjármála- og forsætisráðherra gegnum skyldleika. Engeyingarnir svonefndir eru taldir njóta góðs af þessari ráðstöfun. Og svo óttast fólk um persónuvernd; með því að girða fyrir notkun reiðufjár megi fylgjast með borgurum nánast hvert fótmál eða hvar sem þeir sveifla korti sínu.

Er þetta lið sturlað?

Athygli vekur að Sjálfstæðismenn sem eru í samstarfi við Viðreisn í ríkisstjórn virðast margir afar ósáttir við þessar ráðagerðir.

Teitur Björn er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og honum líst ekkert á þessi áform Benedikts.visir/ernir
„Mikilvægt er að berjast gegn skattsvikum með öllum tilhlýðilegum ráðum. Besta ráðið til þess er að hafa skatta lága og almenna og skattkerfið gegnsætt og skilvirkt. Að banna fólki að stunda viðskipti sín á milli með lögeyri útgefnum af ríkinu sjálfu er kolröng nálgun og hreinlega galin hugmynd,“ segir Teitur Björn Einarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Facebooksíðu sinni. Fjölmargir þekkir Sjálfstæðismenn setja læk við þessi orð Teits.

Annar Sjálfstæðismaður sem vandar Benedikt ekki kveðjurnar er Andrés Magnússon blaðamaður. „Þetta lið er sturlað. Enginn af þessum vitringum hugsar eitt augnablik um hagsmuni eða hægindi almennings, heldur eiga næstum allir landsmennirnir 340.000 að ganga í takt til þess að möppudýrunum veitist auðveldara að eltast við hina 110, sem Bensi grunar um stórfelld skattsvik,“ segir Andrés og hann er gramur:

Stefán Hilmarsson spyr hvort upp sé runninn tími álkrónunnar á ný?
„Og rökstuðningurinn heldur engu vatni: „Almenn reiðufjárnotkun er þó mjög lítil hér á landi í alþjóðlegum samanburði og rafræn greiðslukortaviðskipti ráðandi. Til að torvelda möguleika til skattundanskota og peningaþvættis er lagt til að reiðufjárnotkun verði takmörkuð.“ — Ég held það sé nær að skikka starfsmenn fjármálaráðuneytisins að taka lýsi á morgnana.“

Tiltekin fjölskylda makar krókinn

Hallgrímur Óskarsson tónlistarmaður og fjármálaráðgjafi er ekki hrifinn: „Fjölskylda fjármálaráðherra hagnast gríðarlega af því að auka tekjur kortafyrirtækja sem þessi aðgerð gerir. Þessi aðgerð tekur ekki á 99% umfangi skattsvika sem felst í því að taka fjármuni og geyma þá óskattlagða á aflandseyjum. Hvað er næst? Bannað að ferðast með rútum nema að þær séu í eigu tiltekinna fjölskyldna?“

Og Stefán Hilmarsson tónlistarmaður spyr af þessu sama tilefni: „Er tími álkrónunnar loksins kominn aftur?!“

Stóri bróðir fagnar

Og þannig gengur dælan. Ef litið er í aðrar áttir þá er Eva Hauksdóttir, sem hefur verið virk meðal Pírata, langt í frá hrifinn og það eru persónuverndarsjónarmið sem trufla hana: „Þannig að núna verður hægt að rekja hvert fótspor hins almenna borgara. Yfirvaldið getur fylgst með því hvort þú ferð í sjoppu, apótek, strippbúllu eða bifreiðaverkstæði. Einmitt það sem okkur vantaði.“

Eva Hauksdóttir segir að núna verður hægt að rekja hvert fótspor hins almenna borgara.
Jóhannes Björn hagfræðingur sér einnig fyrir sér stóra bróður: „Hugmyndin (sem möppudýr margra landa eru að reifa þessa dagana) er að leggja niður ALLA peningaseðla. Stærri seðlarnir eru bara byrjunin. Þegar allar greiðslur eru stafrænar vita stjórnvöld nákvæmlega um allt sem við gerum. Það opnast líka sá möguleiki að þeir sem eru "óþægir" verði flokkaðir sem andófsmenn eða "terroristar" og kortið þeirra virki ekki lengur. A Brave New World og 1984 í einum pakka.“

Ekkert tekið á þessum stóru

Sara Óskarsson varaþingmaður Pírata spyr hvort hægri menn geti ekki ákveðið sig: „Ýmist eru „skattar ofbeldi“ nú eða þjóðfélaginu algjör lífsnauðsyn og mjög aðkallandi að stoppa í öll göt á stærð við nálarauga. En okay auðvitað eru þetta lög í landinu og ráðherra ber að styrkja við að þeim sé fylgt sama hver rót hugmyndafræði flokks hans er. Hins vegar er það afleitt að á meðan að tekið sé af offorsi sem þessu á 'litla svikaheiminum' - mega 'stóriðjuryksugurnar' sem fá dæmalausar skattaívilnanir, blekkja kerfið með t.d. þunnri eiginfjármögnun og flytja svo gróða af starfseminni að miklu leyti erlendis að komast endalaust upp með að snuða landann.

Sara Óskarsson segir sjálfsagt að reyna að sporna við fæti gegn skattsvikum, en það liggi fyrir að þeir hinir stóru sleppi.
Er það þróunin sem að fjármálaráðherra er að vinna í áttina að? Að almenningur verði löghlýðnari en hinir 'stóru' þeir í fyrsta lagi eru með hauka í horni víðast hvar í stjórnmála- og viðskiptalífinu til að passa upp á að lög séu þeim í vil, í öðru lagi með hauka í horni til að verða líklegri til að fá kannski ríkisstyrkistyrki og síðast en ekki síst, með þessari aðgerð verður enn meira í pottinum fyrir alla sem vilja stunda sinn pilsfaldakapitalisma í friði. Já og dómara á réttum stöðum ef að allt fer á versta veg. Gleymdi ég að minnast á skattaskjól?.. #PanamaPapers (svo finnst mér það alltaf hringja viðvörunarbjöllum þegar að stjórnmálamenn tala um "að fara í stríð við" eitthvað. Áróðurslegt og populískt í eðli sínu að mínu mati. #WarOnDrugsetc#ReiðuféslaustÍsland #WarOnPropaganda

Siðlaust að færa kortafyrirtækjunum viðskiptin á silfurfati

Og ef við færum okkur til vinstri á hinum pólitíska ási þá ritar Máni Pétursson útvarpsmaður pistil á Facebooksíðu sína sem hefur vakið mikla athygli. Máni veltir fyrir fyrir sér hagsmunatengslum:

„Gott að hafa ákveðna hluti í huga hérna.  Þegar þú kaupir vöru með korti debet eða kreditkorti greiðir seljandinn 0,4-3,9% til kortafyrirtækisins sem gefur út kortið. Sem sagt afhverjum 1000 krónum sem þú eyðir á kortið þitt fær borgun og kreditkort 4-39 krónur. Fjármálaráðherra er með þessari aðgerð að aukatekjur kortafyrirtækjana og banka umtalsvert. Ég læt alveg ósagt hversu óheppilegt það er vegna hagsmunatengsla sem leiðtogar þessarar ríkistjórnar hafa við kortafyrirtæki.

Útvarpsmaðurinn Máni Pétursson hefur ritað pistil um málið sem vakið hefur mikla athygli.
Ef maður skoðar þetta síðan útfrá frelsi einstaklingsins. Sem er orð sem Íslenskir hægrimenn hafa lengi gjaldfellt. Þá er þetta beinlínis siðlaust. Það er í raun verið að gefa bankafyrirtækjum og kortafyrirtækum leyfi til þess að kortleggja alla okkar neyslu.

Að halda því fram að þetta sé til þess að koma í veg fyrir skattsvik er síðan í raun og veru ógeðsleg árás á alþýðu þessa lands,“ skrifar Máni meðal annars.

Inga Sæland formaður Flokks fólksins þarf ekki að hafa mörg orð um þetta: „Erum við vitni að bilun í beinni?“

Viðreisn til auðvalds og Engeyjar

Illugi Jökulsson rithöfundur og pistlahöfundur segir einfaldlega: „Það er nú komið í ljós að nafnið „Viðreisn“ þýðir í rauninni „Viðreisn auðvaldsins og Engeyjar“.“

Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands segir að það sé ekki píparinn, sem vinnur svart, „sem er að grafa undan velferðarkerfinu heldur stórfyrirtækin, sem stjórnvöld vernda með skattalækkunum, slælegu eftirliti með faktúrufölsunum og skattaundanskotum og földum fjármunum í aflöndum – og eigendur þessara fyrirtækja, bakland Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar. Ef ríkisstjórnin vill sjá hvernig hinn dæmigerði niðurbrotsmaður vestræns samfélags lítur út nægir þeim að horfa á manninn við endann á ríkisstjórnarborðinu; Panamaprinsinn sjálfan.

Ekki margir vinir Benedikts taka til máls á Facebook núna í dag, en Hanna Katrín er undantekning þar á.
Á meðan aðgerðir til að draga úr skattsvikum og skattaundanskotum mega ekki að snerta hár á höfði Bjarna og hans frændgarðs, en elta þess í stað uppi þá sem losa stíflur í klósettum eða skipta um brotna rúðu fyrir fólk, erum við í raun að blessa skattsvik yfirstéttarinnar. Sem íslensk stjórnvöld hafa svo sem alla tíð gert, enda hafa íslensk stjórnvöld alla tíð verið stjórnmálaarmur auðstéttarinnar, valdaránstæki hennar. Ísland er hænsnabú þar sem minkar eru kosnir til helstu trúnaðarstarfa.“

Er verið að taka á styrkingu krónunnar

Einar Bárðarson athafnamaður býður svo uppá greiningu að hætti hússins. „Er þá pælingin að taka á styrkingu krónunar með því að taka 10.000 kr seðilinn úr umferð ... styrkur hennar hlýtur þá að lækka um 50%,“ segir einar og broskall fylgir. „ef hæsti seðillinn er bara 5.000 kr geri ég ráð fyrir hahahahahahaha. Lengri verður pistillinn ekki frá Greiningadeild EB BANK,“ segir Einar Bárðarson.

Þeir eru ekki margir sem víkja góðu orði til Benedikts og þarf að leita í flokk hans til að finna slíkan. Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar segir:

„Þetta er ekkert sérstaklega flókið. Sá sem svíkur undan skatti, stelur frá samfélaginu.

Það er ástæða til að fagna því að í dag skiluðu tveir starfshópar Benedikts, fjármála- og efnahagsráðherra, skýrslum sínum. Annar hópurinn einbeitti sér að svarta hagkerfinu og aðgerðum til að draga það í dagsljósið og hinn fjallaði um notkun falskra reikninga til að svíkja undan skatti,“ skrifar Hanna Katrín en hlýtur fremur dræmar undirtektir við þeim orðum sínum.


Tengdar fréttir

Könnun: Vilt þú takmarka notkun reiðufjár?

Í dag var kynnt skýrsla starfshóps um umfang skattaundanskota og tillögur til aðgerða þar um en Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, kynnti skýrsluna á blaðamannafundi í dag auk annarrar skýrslu sem gerð var um milliverðlagningu í utanríkisviðskiptum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×