Fótbolti

Harpa: Tek pressunni fagnandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þrátt fyrir að hafa eignast barn í vetur og aðeins spilað 138 mínútur með Stjörnunni í sumar var Harpa Þorsteinsdóttir valin í íslenska landsliðið sem fer á EM í Hollandi í næsta mánuði.

Harpa var markahæst í undankeppni EM þrátt fyrir að missa af tveimur síðustu leikjum Íslands.

Íslenska liðinu hefur gengið illa að skora í fjarveru Hörpu sem fann fyrir pressu að snúa aftur á fótboltavöllinn fyrir EM.

„Það er gott að fá þessa pressu og ég tek henni fagnandi. Þá veit ég að það eru not fyrir mig, bæði hjá Stjörnunni og landsliðinu. Ég horfi bara jákvæðum augum á það,“ sagði Harpa í samtali við Arnar Björnsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Hún segir það ekkert mál að fara úr móðurhlutverkinu og inn á völlinn.

„Ég elska það. Ég fæ rosalega mikið út úr því að vera með strákunum mínum og spjúpdóttur hérna heima og gef mig alla í það. En svo finnst mér rosalega gott að komast út á völlinn og kúpla mig frá því,“ sagði Harpa sem segist vera í góðu líkamlegu formi.

„Ég er í eins góðu standi og búast má við á þessum tímapunkti. Ég æfði vel meðan ég var ófrísk og allt gekk vel. Hann hefur verið vær og í raun hefur allt gengið upp sem ég hef gert. Ég er búin að gera mitt og svo er bara að sjá hvort það sé nóg,“ sagði markadrottningin.

En er þetta ekkert mál, að koma sér aftur á stað eftir barnsburð?

„Þetta er mikið mál,“ sagði Harpa og hló. „Ég ætla ekki að fara í felur með það. En það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi og maður er með réttan stuðning. Og ég er svo sannarlega með hann.“

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan. Þar er einnig rætt við landsliðsþjálfarann Frey Alexandersson.


Tengdar fréttir

EM-hópurinn valinn: Harpa fer með til Hollands

Framherjinn Harpa Þorsteinsdóttir úr Stjörnunni fer með íslenska landsliðinu á EM í Hollandi en EM-hópurinn var tilkynntur á blaðamannafundi í Laugardalnum rétt í þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×