Erlent

Níu ára sendast með vopn og fíkniefni í Svíþjóð

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Lögreglan segir ástandið í sumum hverfum grafalvarlegt. FRÉTTABLAÐIÐ/EPA
Lögreglan segir ástandið í sumum hverfum grafalvarlegt. FRÉTTABLAÐIÐ/EPA vísir/epa
Dæmi eru um að níu ára börn hafi verið látin sendast með vopn og fíkniefni í hverfum í Svíþjóð sem skilgreind hafa verið sem hættusvæði. Ofbeldið er orðið grófara í þessum hverfum og lögreglan segir ástandið grafalvarlegt. Táningar hafa tekið þátt í skotbardögum glæpagengja. Áður hafi menn skotið andstæðinginn í fótinn til að hræða hann. Nú skjóti menn andstæðinginn í höfuðið til að drepa hann.

Í nýrri skýrslu sænsku lögreglunnar segir að ungmenni á aldrinum 15 til 25 ára beri ábyrgð á glæpaöldunni. Lögreglan bendir á að þau sem eldri eru virki eins og atvinnumiðlun fyrir þau yngri og ýti þeim út í glæpastarfsemi. Þess er getið að í hverfum þar sem ástandið er slæmt tíðkist oft viðskipti með leigusamninga sem hafi í för með sér að margar fjölskyldur búa í sömu íbúð. Afleiðingin sé sú að unglingar forðist að vera heima hjá sér.

Í 61 hverfi sem lögreglan flokkar sem hættusvæði eru um fimm þúsund glæpamenn í um 200 gengjum. Innan við helmingur íbúanna hefur atvinnu og óánægjan með samfélagið er mikil. Tekið er fram að ástandið sé sérstaklega alvarlegt í 23 hverfanna. Það eru átta fleiri en í skýrslunni 2015.

Í hverfunum sem skilgreind eru sem hættusvæði hefur byggst upp hliðarsamfélag með eigið „réttarkerfi“. Með hótunum, ofbeldi og skemmdarverkum eru verslunareigendur þvingaðir til að kaupa sér vernd eða selja starfsemi sína á undirverði. Glæpamenn sýna vald sitt með því að stela úr verslunum án þess að leyna því og borða á veitingastöðum í hverfunum án þess að greiða fyrir. Traust á opinbera réttarkerfinu er lítið og fáir þora að hafa samband við lögregluna. Grípi lögreglan inn í gegn þeim sem stjórna er hætta á uppþotum.

Spenna hefur einnig myndast í hverfunum vegna nærveru stuðningsmanna ýmissa íslamskra öfgasamtaka.

Lögreglan segir þessa þróun ekki hafa gerst á einni nóttu, heldur á nokkrum áratugum. Ástandið ógni lýðræðinu og réttarkerfinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×