Erlent

Ákærður fyrir að afhenda Kínverjum leyniskjöl

Atli Ísleifsson skrifar
Samkvæmt bandarískum lögum gæti Mallory, sem talar reiprennandi kínversku, átt yfir höfði sér lífstíðardóm. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Samkvæmt bandarískum lögum gæti Mallory, sem talar reiprennandi kínversku, átt yfir höfði sér lífstíðardóm. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Kevin Mallory, fyrrverandi bandarískur embættismaður, hefur verið handtekinn og ákærður fyrir að hafa afhent trúnaðargögn til útsendara kínverskra yfirvalda.

BBC greinir frá því að samkvæmt dómsskjölum sé hinn sextugi Mallory sagður hafa ferðast til Shanghai í mars og apríl á þessu ári. Á flugvellinum í Chicago á leiðinni heim hafi hann svo ekki gert grein fyrir samtals 16.500 Bandaríkjadölum í reiðufé, um 1,7 milljónum króna, sem hann hafði komið fyrir í handfarangri.

Samkvæmt bandarískum lögum gæti Mallory, sem talar reiprennandi kínversku, átt yfir höfði sér lífstíðardóm. Hann mætti fyrir dómara í dag.

Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur greint frá því að Mallory hafi verið með umfangsmikinn aðgang að trúnaðargögnum bandarískra stjórnvalda á þeim tíma sem hann starfaði hjá hinu opinbera.

Mallory sagði við starfsmenn FBI í maí síðastliðinn að hann hafi fundað með starfsmanni Félagsvísindaráðs Shanghai (SASS) þegar hann heimsótti borgina í vor, en FBI hefur frá árinu 2014 talið kínverska njósnara segjast tengjast SASS til að villa á sér heimildir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×