Viðskipti innlent

Bensínið í Costco blandað bætiefnum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bensínið í Costco hefur alið af sér eldheitar umræður í íslensku samfélagi síðustu misserin.
Bensínið í Costco hefur alið af sér eldheitar umræður í íslensku samfélagi síðustu misserin. Vísir/eyþór
Bensín sem selt er í Costco er blandað bætiefni sem á að smyrja bíla og auka sparneytni. Rannsókn Umhverfisstofnunar leiðir þetta í ljós en ekki er hægt að staðfesta hvort efnið hafi umrædd áhrif. Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV í kvöld.

Staðfest hefur verið að Costco blandar bætiefni í eldsneyti sem það kaupir hér á landi af Skeljungi. Bætiefnið á meðal annars að hjálpa til við hreinsun og smurningu bílvéla. Í frétt RÚV kom fram að verslunarrisinn skeri sig úr hvað eldsneytisblöndun varðar en aðrar bensínstöðvar blanda ekki sitt eigið eldsneyti.

Ekki víst hvort bætiefnið hafi tilætluð áhrif

Eldsneytið í Costco hefur verið mikið á milli tannanna á Íslendingum undanfarnar vikur. Bensínið er það ódýrasta á landinu en því hefur jafnframt verið haldið fram að með Costco-eldsneytinu komist bílar beinlínis lengri vegalengdir en með öðru eldsneyti. Umræða um þetta hefur verið áberandi í sérstökum Costco-hóp á Facebook en margir meðlimir hópsins bentu þó á að eyðsla bíla fari eftir aðstæðum hverju sinni.

Í kjölfar umræðunnar staðfesti Umhverfisstofnun að bætiefni væri blandað eldsneytinu í Costco. Gerð var rannsókn á efninu sem bætt er út í Costco-bensínið en stofnunin fékk ábendingu um blöndunina frá heilbrigðiseftirlitinu.

Eiríkur Þ. Baldursson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, sagði í samtali við RÚV að um væri að ræða bætiefni frá fyrirtækinu Lubrizol. Hann sagði þessu bætiefni bætt við í mjög litlu magni og getur ekki sagt til um hvort það smyrji vélar bílanna eða geri þær sparneytnari.

Vísir hefur sent Costco fyrirspurn um málið.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×