Innlent

#Segðunei er ný herferð Europol gegn ofbeldi gegn börnum á netinu

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Börn eru sérstaklega varnarlaus á netinu.
Börn eru sérstaklega varnarlaus á netinu. NordicPhotos/Getty
Lögregluyfirvöld í Evrópu hafa gefið út viðvörun vegna ofbeldis gegn börnum á netinu. Europol hefur í kjölfarið hafið herferð gegn stafrænum þvingunaraðgerðum, blekkingum, hótunum og kúgunum gagnvart börnum.

Herferðin ber heitið #Segðunei eða #Sayno og miðar að því að veita fórnarlömbum sem og mögulegum fórnalömbum ráð. Einnig hvetja samtökin til þess að mál sem þessi séu tilkynnt en þau eru sjaldan tilkynnt til lögreglu.

Í tilkynningu frá Barnaheillum kemur fram að algengast sé að börn séu þvinguð til að senda af sér kynferðislegar myndir. Til að koma í veg fyrir opinbera birtingu þeirra þurfa þau að greiða fyrir öryggið. Stúlkur eru í meirihluta barna sem beitt eru kynferðislegum kúgunum á meðan drengir lenda oftar í fjárkúgunum á netinu.

Hluti af herferðinni er stuttmynd sem gefin er út í tengslum við herferðina. Myndin hjálpar fólki að átta sig á ferlinu ásamt því að veita ráðleggingar um netnotkun. Myndin er fáanleg á öllum tungumálum Evrópusambandslandanna.

„Börn nota Internetið í meira og meira mæli til að eiga samskipti og tengjast félagslega. Það ætti að geta talist eðlilegur hluti af þroska þeirra, en við verðum að fræða þau um þær hættur sem þau kunna að mæta þar svo netumhverfið verði þeim eins öruggt og mögulegt er,“ segir Stefen Wilson, yfirmaður netglæpa í Evrópu hjá Europol.



Skilaboð Europol til þeirra sem lenda í þessum netglæpum eru: Ekki borga og ekki láta skömmina stöðva þig í að tilkynna til lögreglu eða ábendingalínu. Ef einhver hótar þér að deila kynferðislegum myndum eða myndböndum af þér nema þú sendir þeim meira eða borgir þeim fyrir, taktu þessi skref:

  1. Ekki deila meiru, ekki borga neitt.
  2. Leitaðu hjálpar. Þú ert ekki ein/einn.
  3. Geymdu sönnunargögn, ekki eyða neinu.
  4. Hættu samskiptunum. Blokkeraðu manneskjuna.
  5. Tilkynntu til lögreglu eða ábendingalínu.


Barnaheill rekur ábendingalínu hér á landi og vinnu náið með ríkislögreglustjóra. Þar er hægt að tilkynna mál sem þessi ásamt því að hafa samband við lögreglu.



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×