Enski boltinn

Best geymda leyndarmál Juventus á leið til United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Javier Ribalta.
Javier Ribalta.
Javier Ribalta, yfirnjósnari Ítalíumeistara Juventus, er að ganga í raðir Manchester United en það er ítalski blaðamaðurinn Gianluca Di Marzio sem greinir frá þessu á heimasíðu sinni.

Juventus hefur nú þegar staðfest að Ribalta sé að yfirgefa félagið en það kemur fram í yfirlýsingu á heimasíðu ítölsku meistaranna þar sem Ribalta eru þökkuð góð störf.

Ribalta er kallaður útsendari 007 eins og James Bond í ítölskum miðlum en hann er sagður eitt best geymda leyndarmál Juventus og stór ástæða þess að liðið hefur unnið Ítalíumeistaratitilinn fimm ár í röð og farið tvisvar sinnum í úrslit Meistaradeildarinnar.

Hann er með 20 menn á sínum snærum sem fylgjast með góðum og efnilegum leikmönnum. Hann er líka sagður einstaklega fær í því að fá góða leikmenn fyrir lítið fé þar sem hann er mjög vel tengdur.

Ribalta komst meðal annars að því að í samningi Dani Alves hjá Barcelona var klásúla sem tryggði Juventus bakvörðinn frítt en Alves spilaði frábærlega á síðustu leiktíð.

Hann fékk einnig Andrea Pirlo, Sami Khedira og Fernando Llorente til Juventus án greiðslu og þá ber hann ábyrgð á Arturo Vidal og Paul Pogba. Þeir komu fyrir lítið fé en voru svo seldir á svakalegar upphæðir.

Argentínumaðurinn Paulo Dybala er líka leikmaður sem Ribalta og hans menn fundu og þá vildi Ribalta fá Álvaro Morata til Juventus. Spænski framherjinn kostaði 20 milljónir evra og skoraði mikilvæg mörk sem komu liðinu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar en hann var svo seldur til baka til Real fyrir 30 milljónir evra.

Ribalta er sagður hafa myndað mikil og góð tengsl við Álvaro Morata þegar hann var hjá Juventus og kemur því ekkert sérstaklega á óvart að United sé nú að reyna að fá Spánverjann til liðs við sig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×