Innlent

Ánægja með störf forsetans minnkar

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Ánægja með störf Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands náði hámarki í apríl síðastliðnum þegar hún mældist 85%.
Ánægja með störf Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands náði hámarki í apríl síðastliðnum þegar hún mældist 85%. Vísir/Eyþór
Ánægja landsmanna með störf Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands mælist nú 81,1% og hefur minnkað aðeins frá því hún náði hámarki og mældist 85% í apríl og 83,9% í maí. Ánægjan er á pari við könnun MMR frá því í janúar. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var 6. til 14. júní. 

Óánægja landsmanna með störf Guðna Th. sem forseta Íslands hefur aftur á móti aukist frá síðustu mælingu. Þar kom í ljós að 5,1% sögðust óánægðir með störf forsetans samanborið við 2,8% í síðustu mælingu.

Könnunin var framkvæmd 6. til 14. júní en þann 15. júní var greint frá því að dæmdum kynferðisbrotamanni hefði verið veitt uppreist æru. Guðni tjáði sig um málið þann 16. júní en málið er eitt það umdeildasta sem komið hefur upp í forsetatíð Guðna sem fer að nálgast eitt ár. 

Fleiri konur en karlar sögðust vera ánægðar með störf forsetans eða 86%, samanborið við 77% karla.

Þá reyndist ánægja með störf forsetans mismunandi þegar horft var til stuðnings við stjórnmálaflokka.

Mest var ánægjan með störf forsetans hjá stuðningsfólki Samfylkingarinnar, eða 96%. Stuðningsfólk Framsóknar- (64%) og Sjálfstæðisflokksins (68%) reyndust almennt ekki vera jafn ánægt með störf forsetans og stuðningsfólk annarra flokka.

Til samanburðar frá síðustu mælingum í apríl 2017 reyndust stuðningsfólk Pírata og Vinstri grænna sá flokkur sem ánægðastir voru með störf forsetans, jafnir með 95%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×