Innlent

Kærir tvo lögreglumenn vegna framgöngu þeirra við handtöku sína

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Verjandi mannsins segir að lögreglumennirnir hafi beitt of miklu valdi við handtökuna.
Verjandi mannsins segir að lögreglumennirnir hafi beitt of miklu valdi við handtökuna. vísir/eyþór
Karlmaður á fertugsaldri, sem var í fyrradag dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir tilraun til líkamsárásar og brot gegn valdstjórninni, hefur kært tvo lögreglumenn vegna framgöngu þeirra við handtöku hans.

Atvik málsins voru þau að í ágúst í fyrra var lögregla kölluð til vegna hótana mannsins um sjálfskaða. Tveir lögreglumenn mættu á staðinn með kylfur, skildi og piparúða. Þegar þeir komu inn í íbúðina tók maðurinn á móti þeim í annarlegu ástandi og réðst gegn þeim vopnaður hnífi með 15 sentimetra löngu blaði.

Lögreglumaðurinn, sem fór á undan inn í íbúðina, sagði fyrir dómi að hann hefði varist honum með skildi sínum, kylfu og að lokum sprautað piparúða á manninn. Hinn handtekni var mjög æstur og þurftu lögreglumennirnir að liggja ofan á honum þar til sjúkraflutningamenn bar að garði. Þeir sprautuðu manninn niður.

Hinn sakfelldi hlaut dóm fyrir háttalag sitt en hann neitaði sök. Hann mundi þó lítið eftir atvikum vegna ölvunar og lyfjaneyslu.

Var hann að lokum dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir tilraunina og fyrir að hafa hrækt á lögreglumennina.

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi mannsins, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að í upphafi árs hafi verið lögð fram kæra til embættis héraðssaksóknara þar sem lögreglumennirnir tveir hafi beitt of miklu valdi við handtökuna. Málið sé nú í rannsókn hjá embættinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×