Kafbátur NATO í Reykjavíkurhöfn

Kafbátaeftirlitsæfing Atlantshafsbandalagsins (NATO) hefst í dag og stendur til 6. júlí næstkomandi. Æfingin fer fram við Íslandsstrendur að þessu sinni og kom kafbátur á vegum bandalagsins kom því inn til Reykjavíkurhafnar í dag.
Báturinn er frá norska hernum en annar kafbátur frá Þýskalandi mun einnig koma til hafnar. Alls taka fimm kafbátar þátt í æfingunni sem fer fram úti á hafi sunnan við Vestmannaeyjar og fara hinir kafbátarnir þrír beint til æfingarinnar.
Auk kafbátanna tveggja sem koma inn til hafnar munu sex herskip koma inn í Sundahöfn og vera þar yfir helgina samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu.

Níu ríki NATO taka þátt
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að þessi æfing, sem kallast Dynamic Mongoose, hafi farið fram árlega frá árinu 2012 en hingað til alltaf við strendur Noregs.
„Níu ríki Atlantshafsbandalagsins, Bandaríkin, Noregur, Frakkland, Þýskaland, Bretland, Danmörk, Kanada, Pólland og Holland. taka þátt í æfingunni og leggja til fimm kafbáta, níu freigátur og eitt rannsóknarskip, auk 6-8 kafbátaleitarflugvéla og þyrla. Ríflega tvö þúsund manns mun taka þátt í æfingunni,“ segir í tilkynningunni.
Ísland leggur til aðstöðu á öryggissvæði Keflavíkurflugvallar auk þess sem Landhelgisgæslan tekur þátt í æfingunni, meðal annars með stjórnstöð á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
„Varðskipið Týr, flugvél gæslunnar og þyrlur munu taka þátt í þeim hluta æfingarinnar sem tengjast hefðbundnum verkefnum stofnunarinnar. Stjórn æfingarinnar verður flutt frá flotastjórn Atlantshafsbandalagsins í Northwood í Bretlandi til öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli og verður það í fyrsta sinn sem þess konar æfingu er ekki stjórnað frá Northwood,“ segir í tilkynningu.
Fjallað verður nánar um æfinguna í kvöldfréttum Stöðvar 2.