Erlent

Leiðtogi stjórnarandstöðu fær ekki að bjóða sig fram

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Alexei Navalní í lögreglufylgd.
Alexei Navalní í lögreglufylgd. vísir/EPA
Alexei Navalní, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Rússlandi, var í gær meinað að bjóða sig fram til forseta en forsetakosningar fara fram þar í landi á næsta ári. Miðstjórn kosninga í Rússlandi kvað upp úrskurð sinn þess efnis í gær og byggist hann á því að Navalny var dæmdur sekur fyrir fjárdrátt. Hann er nú á skilorði.

Navalní hefur hins vegar sagt að sá dómur hafi verið pólitískur. Sjálfur hefur fann farið fyrir fjöldamótmælum gegn Vladimír Pútín Rússlandsforseta og sakað hann um spillingu.

Í ofanálag var Navalní dæmdur í þrjátíu daga fangelsi fyrr í mánuðinum fyrir að brjóta endurtekið lög gegn slíkum fjöldamótmælum. Hafði Navalní kallað eftir því að fólk mótmælti meintri spillingu ríkisstjórnarinnar og voru hund­ruð handtekin á þeim mótmælum.

Navalní hafnaði úrskurðinum í gær. Sagðist hann ætla með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Jafnframt sagði hann að í stjórnarskrá Rússlands segði að einungis fangar mættu ekki bjóða sig fram til forseta.

Mótmæli Navalní hafa undanfarið beinst gegn forsætisráðherranum Dimitrí Medvedev. Sakar Navalní forsætisráðherrann um að sanka að sér fé í laumi í skjóli embættis síns. Medvedev hafnar þeim ásökunum.

Sjálfur hefur Pútín ekki staðfest að hann muni gefa kost á sér á ný í forsetakosningunum. Ef hann sigrar í þeim kosningum yrði næsta kjörtímabil hans fjórða. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×