Erlent

Katörum sett ströng skilyrði

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Katörum er gert að skera á fjárveitingar til Al Jazeera.
Katörum er gert að skera á fjárveitingar til Al Jazeera.
Fjögur Arabaríki hafa sent Katörum strangar kröfur, eigi þau að aflétta þvingunum gegn katarska ríkinu. Ríkin sem um ræðir eru Sádi-Arabía, Egyptaland, Bahrein og Sameinuðu arabísku furstadæmin.

Katarar hafa nú þurft að sæta þvingunum í tvær vikur og hafa samskiptin við fyrrnefnd ríki sjaldan verið verri. Eru Katarar meðal annars sakaðir um að fjármagna hryðjuverkasamtök.

Nokkrar þeirra krafna sem um ræðir eru að skera á tengsl við Bræðralag múslima, neita að veita ríkisborgurum ríkjanna fjögurra ríkisborgararétt og senda þá til baka til heimalandsins, framselja alla þá menn sem eftirlýstir eru, grunaðir um hryðjuverk, til landanna fjögurra, hætta að fjármagna hryðjuverkasamtök, skera á fjárveitingar til fjölmiðla á borð við Al Jazeera og Arabi21 sem og að greiða ótilgreindar skaðabætur.

Þá greinir heimildarmaður Reut­ers frá því að Katörum sé líka gert að skera á meint tengsl við ISIS, al-Kaída og Hezbollah.

AP greinir frá því að Katörum sé í þokkabót gert að kalla diplómata sína heim frá Íran og einungis stunda viðskipti við Íran sem stand­ast kröfur þvingana Bandaríkjanna gegn ríkinu.

Í vikunni sagði utanríkisráðherra Katars að ríki sitt myndi ekki samþykkja nein afskipti annarra ríkja af Al Jazeera enda teldu Katarar slíkt heyra alfarið undir innanríkismál. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×