Íslenski boltinn

Ólafur Þór: Sundurspiluðum þær og hefðum átt að setja fleiri mörk

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ólafur stýrði Stjörnunni til sigurs í kvöld.
Ólafur stýrði Stjörnunni til sigurs í kvöld.
Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar, var ánægður með sitt lið eftir að þær tryggðu sér farseðil í undanúrlsit Borgunarbikars kvenna. Stjarnan sigraði Þór/KA 3-2 á heimavelli sínum í Garðabænum í kvöld.

„Við settum kraft í þetta. Okkur fannst við ekki hafa verið að sýna þann kraft sem við eigum inni undanfarna leiki og við komum vel stemmdar í dag. Frábær leikur hjá okkur,“ sagði Ólafur.

Miðað við hvernig Stjörnuliðið var að spila þá fór ekkert illa um hann á hliðarlínunni. Hans konur óðu í dauðafærum og hefðu átt að skora fleiri mörk í fyrri hálfleik þar sem þær sundurspiluðu gestina.

„Harkan byrjaði á fyrstu mínútu þegar hún hennti einum leikmanni hérna í jörðina og fær eitthvað vægt tiltal,“ svarar Ólafur, aðspurður hvað honum hafi fundist um hörkuna í leiknum. „Þær fengu tiltal langt fram eftir leik, mér fannst hún taka allt of lint á því, en að öðru leiti fékk leikurinn að fljóta vel.“

Ólafur hefur ekki miklar áhyggjur af þéttu leikjaplani þessa dagana, hann sé með þéttan hóp sem er í góðu standi.

„Ég bara vona að allir komist heilir í gegnum þetta, bæði fyrir okkur og landsliðið. Það er aðal áhyggjuefnið, orkulega séð hef ég engar áhyggjur,“ bætir hann við. Þetta var þriðji leikur liðsins á átta dögum og næsta umferð í deildinni verður spiluð næsta þriðjudag, eftir fjóra daga. 

„Við erum hætt að halda að við ráðum neitt um það, eða getum óskað eftir einhverju varðandi það,“ sagði Ólafur þegar blaðamaður spyr um óskamótherja í undanúrslitunum.

Nánari umfjöllun um leik Stjörnunnar og Þórs/KA má sjá hér




Fleiri fréttir

Sjá meira


×