Innlent

Kjararáð hækkar kjör sendiherra og átta embættismanna afturvirkt

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Sveinn Arason ríkisendurskoðandi, Unnur Stefánsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og Örnólfur Thorsson forsetaritari fá öll launahækkun.
Sveinn Arason ríkisendurskoðandi, Unnur Stefánsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og Örnólfur Thorsson forsetaritari fá öll launahækkun. Vísir
Kjararáð ákvarðaði um miðjan mánuðinn kjör átta embættismanna auk sendiherra um miðjan mánuðinn. Laun allra hækka nokkuð og í öllum tilvikum afturvirkt. Úrskurðirnir voru birtir í dag.

Meðal þeirra sem fengu hækkun var Örnólfur Thorsson forsetaritari. Föst mánaðarlaun hans hækka um rúmlega 200 þúsund krónur og verða rúmlega 1,3 milljónir. Þá hefur verið tekið tillit til fastrar yfirvinnu. Hækkunin er afturvirk til 1. október í fyrra.

Varaforseti Hæstaréttar hækkar um einn launaflokk og verður nú einum flokki lægri en forseti réttarins. Hins vegar er hann flokki hærri en aðrir dómarar við réttinn. Laun hans verða 1,9 milljónir eftir hækkunina. Líkt og hjá forsetaritara er hækkunin afturvirk til 1. október í fyrra.

Forstjóri Fjármálaeftirlitsins og framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar fá hækkun sem er afturvirk til átján mánaða. Laun forstjóra FME voru ákveðin tæpar 1,2 milljónir en ofan á það smyrst um 620 þúsunda föst yfirvinna.

Framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar hækkar um 100 þúsund krónur.

Sendiherrar hækka í launum afturvirkt til eins árs og verða laun þeirra eftir hækkun 1,2 milljónir hið minnsta. Hækkunin er mismikil eftir mannaforráði sendiherra. Þá verður ríkisendurskoðandi með 1,7 milljónir, afturvirkt til þrettán mánaða, hagstofustjóri fær tæpa 1,5 milljónir og ferðamálastjóri 1,47 milljónir afturvirkt til 1. október. Í öllum upphæðunum hefur verið tekið tillit til fastákveðinnar yfirvinnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×