Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fjölnir - Valur 1-1 | Valsmenn björguðu stiginu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir
Fjölnir og Valsmenn gerðu 1-1 jafntefli í fyrsta leik 9. umferðar Pepsi-deildar karla á Extra-vellinum í dag. Birnir Snær Ingason kom Fjölni yfir í fyrri hálfleiknum en það var Sigurður Egill Lárusson sem jafnaði metin úr vítaspyrnu rétt fyrir leikslok.

Af hverju fór leikurinn jafntefli?

Valsmenn gáfust bara aldrei upp og það leit alltaf út fyrir að Valur myndi jafna þennan leik. Fjölnismenn gerði fáar tilraunir til þess að skora annað mark liðsins og gera út um leikinn og því buðu heimamenn í raun upp á jafntefli.

Hverjir stóðu upp úr?

Þórður Ingason var stórkostlegur í markinu fyrir Fjölnismenn og varði hvert skotið á eftir öðru frá Valsmönnum. Hann er hreinlega ástæðan fyrir því að Fjölnir tapaði ekki leiknum. Sigurður Egill Lárusson átti flottan leik í herbúðum Vals í kvöld.

Hvað gekk illa?

Hjá Val gekk illa að koma boltanum bara yfir marklínuna og framhjá Þórði í markinu. Liðið skapaði sér alveg færi en náði ekki að leggja lokahöndina á sóknir liðsins. Fjölnismenn voru aftur á móti í vandræðum með að skapa sér færi í leiknum.

Hvað gerist næst?

Leikurinn fór fram klukkan tvö á laugardegi þar sem Valsmenn eru að fara til Lettlands til að taka þátt í Evrópukeppni og halda þeir út til Riga á morgun. Það er framundan hjá toppliðinu en Fjölnismenn halda áfram að berjast fyrir lífi sínu í deildinni.

Ólafur: Við hefðum getað spilað nokkra leiki í röð án þess að skora„Ég er bara ánægður með stigið úr því sem komið er,“ segir Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, eftir leikinn í dag.

„Við vorum í tómu basli allan leikinn. Við vorum í vandræðum með að skora, þrátt fyrir að fá fullt af færum. Ég held að við hefðum getað spilað nokkra leiki í röð í dag án þess að skora.“

Hann segir því að stigið hafi bara verið mjög gott. Ólafur vildi fá vítaspyrnu í byrjun leiks þegar Dion Acoff, leikmaður Vals, féll inni í vítateig Fjölnis.

„Ég sá þetta kannski ekki alveg nægilega vel en ég vona að þetta hafi verið rétt hjá Pétri, því Pétur er góður dómari.“ Ólafur segir að Evrópuævintýri Vals hafi ekki truflað þá í leiknum í dag.

„Það var ekki í hausnum á strákunum, við vorum bara slakir í dag. Það vantaði smá ákefð í okkur en förin til Lettlands truflaði okkur ekki.“

Ágúst: Dómarinn leggur þetta upp í hendurnar á þeim„Maður er svolítið svekktur eftir þessi úrslit eins og leikurinn spilaðist,“ segir Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, eftir leikinn í dag.

„Valsarar fengu nokkur dauðafæri í leiknum og náðu bara ekki að skora. Það voru hrindingar út um allan völl allan leikinn og lítið dæmt en svo kemur ein hrinding inni í okkar teig og dómarinn leggur þetta upp í hendurnar á þeim að skora eitt mark.“

Ágúst segir að liðið hafi varist vel og allir leikmenn Fjölnis hafi barist eins og ljón allan tímann.

„Það kom mér verulega á óvart þegar dómarinn dæmdi víti. Línan í leiknum var þannig að það mátti ýta töluvert en síðan kemur þetta atvik inni í vítateig og mér fannst þetta mjög einkennilegur dómur.“

Varnarleikur Fjölnis hefur verið ákveðin hausverkur á tímabilinu en Ágúst var sáttur með sína varnarmenn í dag.

„Þeir skoruðu allavega ekki úr opnum leik og skora bara úr víti. Ég er ánægður með strákana og þeir stóðu sig vel og ég held að við höfum komið Völsurunum svolítið á óvart í dag. Við vitum það alveg að við getum verið alveg jafn góðir og Valsmenn.“

Þórður: Það hefði verið gaman að vera lélegra liðið og ná í vinnusigur„Þetta var mjög erfiður leikur og Valsmenn voru bara virkilega góðir, sérstaklega hérna í seinni hálfleiknum,“ segir Þórður Ingason, markvörður Fjölnis, sem fór á kostum í dag.

„Þeir settu rosalega pressu á okkur og við féllum of langt til baka og þeir náðu að lokum að jafna. Mér líður vel á vellinum og það gekk mjög vel hjá mér persónulega en maður er samt svekktur að hafa gefið þeim þetta víti. Það hefði verið gaman að taka svona 1-0 vinnusigur og vera lélegra liðið.“

Þórður er ekki sáttur með vítaspyrnudóminn.

„Þetta var bara eitthvað smá klafs og hann fer niður, mér fannst ekkert á þetta. Miðað við línuna í leiknum þá fannst mér þetta ekki vera neitt.“

EinkunnirFjölnir 4-4-1-1

Gunnar Már Guðmundsson 5

Ivica Dzolan 6

Þórir Guðjónsson 5

Ægir Jarl Jónasson 6

Birnir Snær Ingason 7 (66. Igor Taskovic 5)

Þórður Ingason 9*

Marcus Solberg 4

Torfi Tímoteus Gunnarsson 6

Hans Viktor Guðmundsson 7

Mees Junior Siers 5

Bojan Ljubicic 6

Valur - 4-3-3

Anton Ari Einarsson 6

Einar Karl Ingvarsson 6

Haukur Páll Sigurðsson 6

Kristinn Ingi Halldórsson 3

Guðjón Pétur Lýðsson 4

Sigurður Egill Lárusson 7

Rasmus Christiansen 5

Arnar Sveinn Geirsson 5

Dion Acoff 5

Orri Sigurður Ómarsson 6

Eiður Aron Sigurbjörnsson 7

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira