Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KA - KR 2-3 | KR-ingar með sterkan sigur á erfiðum útivelli

Ólafur Haukur Tómasson skrifar
Óskar Örn Hauksson skoraði í dag og fékk á sig dæmda vítaspyrnu.
Óskar Örn Hauksson skoraði í dag og fékk á sig dæmda vítaspyrnu. Vísir/stefán
KR gerði góða ferð til Akureyrar þegar þeir lögðu KA í markaleik og sóttu sér mikilvæg þrjú stig en fyrir leik var liðið aðeins stigi frá fallsæti.

 

KR-ingar byrjuðu leikinn frábærlega og komust yfir strax á 2.mínútu leiksins þegar Tobias Thomsen mætti fyrirgjöf Arnórs Sveins Aðalsteinssonar og skallaði boltann í netið. Skellur fyrir KA-menn sem fengu á sig mark í upphafi leiks annan leikinn í röð.

 

Ásgeir Sigurgeirsson, leikmaður KA, vann boltann í teig KR-inga nokkrum mínútum seinna og skaut í stöng fyrir opnu marki. Algjört dauðafæri og það klúður reyndist dýrkeypt því þremur mínútum seinna átti Arnór Sveinn aðra fyrirgjöf sem rataði nú á kollinn á Kennie Chopart sem skoraði einnig af stuttu færi.

 

KA-menn gáfust ekki upp og minnkuðu muninn snemma í seinni hálfleik þegar Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði úr vítaspyrnu eftir að boltinn hafði farið í hendina á Óskari Erni Hauksyni, leikmanni KR.

 

KR-ingar hristu aftur heimamenn af sér rúmlega fimmtán mínútum síðar á 60. mínútu þegar Arnór Sveinn gaf boltann aftur fyrir markið og nú á kollinn á Óskari Erni sem skoraði. Gestirnir því aftur komnir með tveggja marka forystu.

 

Á 85.mínútu minnkaði Elfar Árni aftur muninn fyrir KA eftir að hornspyrna rataði til hans á fjærstönginni þar sem hann skallaði boltann inn af stuttu færi. Nær komust heimamenn ekki og KR-ingar vinna mikilvæg þrjú stig á meðan að KA-menn eiga enn í brasi með að ná í stig í upp á síðkastið.

 

Af hverju vann KR?

Þeir mættu KA-mönnum af miklum krafti og skoruðu tvö mikilvæg mörk í upphafi leiksins og komu sér í nokkuð góða stöðu. Þeim gekk ágætlega að loka á ógn KA í sóknarleiknum þrátt fyrir að hafa fengið á sig tvö mörk en hnitmiðaðar fyrirgjafir Arnórs Sveins Aðalsteinssonar og góðar staðsetningar sóknarmanna þeirra í teignum sköpuðu þrjú mörk og var það sem réði úrslitum í dag.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Arnór Sveinn Aðalsteinsson lagði upp öll þrjú mörk KR-inga í dag með frábærum fyrirgjöfum af kantinum og var lykilmaður í þessum sigri þeirra. Þeir Kenny Chopart og Tobias Thomsen voru líflegir í sókninni og skoruðu báðir, sem og Óskar Örn Haukson.

 

Hjá KA var það Elfar Árni Aðalsteinsson sem skoraði tvö mörk og stendur þar af leiðandi upp úr hjá þeim.

 

Hvað gekk illa?

KA-mönnum gekk furðu illa að verjast fyrirgjöfum og virkuðu fremur óskipulagðir og kærulausir í mörkunum. Þeir fá einnig á sig mark á 2.mínútu annan leikinn í röð og kemur þeim í mjög erfiða stöðu. Ásgeir Sigurgeirsson nagar sig eflaust líka í handbakið fyrir að hafa klúðrað fyrir opnu marki skömmu fyrir annað mark KR.

 

Hvað gerist næst?

KR-ingar ná að skríða upp töfluna og eru nú komnir upp í miðja deild, hjá þeim tekur við leikur í Evrópudeildinni og í Borgunarbikarnum en þetta var mikilvægur sigur fyrir þá.

 

KA-mönnum gengur hins vegar brösulega að vinna sér inn stig upp á síðkastið en þeir fá nú tíma til að fara yfir sín mál og vinna í þeim.

 

Tufa: Trúi ekki á tilviljanir

 

„Við lendum undir 2-0 eftir tuttugu mínútur og fáum á okkur mark eftir tvær mínútur í leik sem skiptir miklu máli og það er ekki í boði að byrja á að elta leikinn strax og það sem ég lagði upp með í byrjun leiks er allt í einu bara breytt. Við reyndum allt og setjum mark á réttum tíma til að snúa þessu við en þriðja markið drap okkur," sagði Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA eftir tapið gegn KR í dag.

 

Þetta var annar leikurinn í röð sem KA-menn fá á sig mark á 2.mínútu leiksins en þeir lentu í þessari stöðu líka í tapleiknum gegn Val í síðustu umferð. Tufa telur það enga tilviljun og það sé bara eitthvað sem hans menn séu að klikka á.

 

„Ég er ekki maður sem trúir á tilviljanir og þetta er bara okkur sjálfum að kenna. Við verðum að mæta betur af fullum krafti á heimavelli, tækla þá og sýna að þeir eru ekki velkomnir hérna. Að elta tveggja marka forystu gegn liði eins og KR er mjög erfitt,"

 

KA-mönnum hefur gengið illa að skora í síðustu leikjum en boltinn rataði tvívegis inn í netið hjá þeim í dag. Tufa hefur engar áhyggjur af því þó mörkin hafi ekki látið sjá sig og telur sína menn hafa spilað vel þrátt fyrir marka- og stigaleysi.

 

„Ég hef ekki haft áhyggjur þó við skorum ekki í þessum síðustu tveimur leikjum því við erum að spila vel og skapa færi. Við fengum nóg færi til að skora mörk, það sem ég er ósáttur með er að við gefum einföld mörk á okkur. Við erum þekktir fyrir sterkan og agaðan varnarleik og þetta er mjög ólíkt okkur."

 

„Spilamennskan hefur ekki verið vonbrigði og við höfum verið að spila vel en sækja fá stig upp á síðkastið og ég er bara mjög ósáttur með þetta. Það er samt ekkert við því að gera annað en að fara á æfingarsvæðið, vinna vel og koma sér aftur í gírinn," sagði Tufa.

 

 

Willum: Höfum þurft að hafa fyrir stigunum

 

„Sigurinn er frábær fyrir svo margar sakir. Við erum að sækja erfiðan útivöll gegn sterkur og erfiðu KA-liði. Þeir eru mjög líkamlega sterkir og mörg lið fengið að finna fyrir því en við mættum þeim mjög vel, vörðumst þeim vel og áttum flottar sóknir til að klára leikinn," sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari KR eftir sigurinn.

 

Það var sama uppskrift af öllum þremur mörkum KR-inga í dag. Boltinn barst út á kantinn til Arnórs Sveins Aðalsteinssonar sem gaf boltann fyrir markið og þeir Kenny Chopart, Tobias Thomsen og Óskar Örn náðu allir að skalla boltann í netið af stuttu færi. Willum telur lykilinn af því hafa verið einbeiting.

 

„Við höfum verið mjög góðir í að sækja upp miðjuna og höfum sókndjarfa bakverði og við bara hittum á það í dag. Við höfum verið að spila mjög vel en ekki skilað þessum mörkum og þetta er stundum spurning um einbeitingu og að ná að hitta á þá og það var kannski lykillinn að því að þetta skilaði mörkum í dag,"

 

Mikil pressa hefur verið á KR-ingum og þá sérstaklega Willum vegna dapurs gengis í upphafi mót en fjögur stig í síðustu tveimur leikjum koma þeim hins vegar upp um miðja deild og gæti það lyft nokkuð þungu fargi af herðum þeirra.

 

„Það má alveg orða það þannig. Það er alltaf mikil vinna á milli leikja, það er fullt af hörku liðum í þessari deild og það þarf að ná sér á strik í hverjum leik. Þannig er bara deildin og við höfum þurft að hafa fyrir okkar stigum. Þegar það kemur á móti þá reynir það á liðsheildina og við vorum það líka í síðasta leik. Við vorum saman í síðasta leik líka og þetta skilaði sigrinum," sagði Willum.

 

KR er nú að nálgast þau lið sem talið var fyrir mót að þeir myndu berjast við um sæti og gæti þessi leikur verið það sem KR-ingar þurfa til að komast á almennilegt skrið í sumar.

 

„Þessi leikur gefur tilefni til þess að halda að það sé svo," sagði Willum.

 

„Nú tekur við Evrópukeppni gegn erfiðu liði og bikarkeppnin, við erum alls staðar inni. Þannig viljum við hafa það og eiga mikið af leikjum. Vonandi tekst okkur að sigla inn fleiri stigum og gerum okkur grein fyrir því að við verðum að ná upp einbeitingu og liðsheild í hverjum einasta leik," bætti hann við.



Einkunnir:

KR (4-3-3): Beitir Ólafsson 6 - Morten Beck 5, Aron Bjarki Jósepsson 5, Gunnar Þór Gunnarsson 5, Arnór Sveinn Aðalsteinsson 9*Maður leiksins - Skúli Jón Friðgeirsson 6, Finnur Orri Margeirsson 5, Pálmi Rafn Pálmason 6 - Óskar Örn Hauksson 7, Kennie Knak Chopart 8 (80. Robert Sandnes -), Tobias Thomsen 7 (88. Garðar Jóhannsson -)

 

 

KA (4-2-3-1): Srdjan Rajkovic 5 - Hrannar Björn Steingrímsson 3 (80. Ívar Örn Árnason -), Callum Williams 5, Aleksandar Trninic 4 (90. Davíð Rúnar Bjarnason -), Darko Bulatovic 5 - Almarr Ormarsson 5, Ólafur Aron Pétursson 4 (61. Steinþór Freyr Þorsteinsson 5) - Hallgrímur Mar Steingrímsson 5, Emil Lyng 4, Ásgeir Sigurgeirsson 6 - Elfar Árni Aðalsteinsson 8

 

 

Maður leiksins: Arnór Sveinn Aðalsteinsson - 9

 

Dómari:Erlendur Eiríksson - 7

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira