Viðskipti innlent

AGS segir að efling fjármálaeftirlits eigi að vera í forgangi

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins telur að það eigi að vera í algjörum forgangi hjá íslenskum stjórnvöldum að styrkja eftirlit með fjármálamarkaðnum. Þá sé æskilegt að endurskoða lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Í nýrri úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er lagt mat á stöðu og horfur í efnahagsmálum hér á landi.

Í tilkynningu frá sjóðnum er farið jákvæðum orðum um stöðuna og þar er nefnt til sögunnar mikill hagvöxtur, lítil verðbólga, uppbygging gjaldeyrisforða, afgangur á viðskiptajöfnuðu og lækkun á skuldum ríkis og sveitarfélaga. Hins vegar gerir sjóðurinn athugasemdir við að ekki sé nægilega mikill afgangur á fjárlögum í ljósi þenslunnar í hagkerfinu og þá leggur sjóðurinn til ýmsar breytingar, eins og eflingu opinbers fjármálaeftirlits.

Í yfirýsingu framkvæmdastjórnar sjóðsins segir: Framkvæmdastjórnin áréttaði að styrking á eftirliti með fjármálageiranum ætti að vera forgangsverkefni. Framkvæmdastjórnin hvatti til endurskoðunar á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi til að styrkja eftirlitið og loka eyðum í eftirliti fjármálageirans.

„Ég er sammála því að fjármálaeftirlit eigi að vera mjög sterkt á Íslandi. Ég tel raunar að það sé það enda hefur það verið styrkt mjög mikið eftir hrun. Það er búið að breyta fjöldanum öllum af lögum. Það getur hins vegar vel verið að það sé komið tilefni til að skoða lög sérstaklega um eftirlit með fjármálastofnunum í tilefni af þessu,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×