Íslenski boltinn

Tufa: Trúi ekki á tilviljanir

Ólafur Haukur Tómasson skrifar
Srdjan Tufegdzic,þjálfari KA.
Srdjan Tufegdzic,þjálfari KA. visir/stefán
„Við lendum undir 2-0 eftir tuttugu mínútur og fáum á okkur mark eftir tvær mínútur í leik sem skiptir miklu máli og það er ekki í boði að byrja á að elta leikinn strax og það sem ég lagði upp með í byrjun leiks er allt í einu bara breytt. Við reyndum allt og setjum mark á réttum tíma til að snúa þessu við en þriðja markið drap okkur," sagði Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA eftir tapið gegn KR í dag.

 

Þetta var annar leikurinn í röð sem KA-menn fá á sig mark á 2. mínútu leiksins en þeir lentu í þessari stöðu líka í tapleiknum gegn Val í síðustu umferð. Tufa telur það enga tilviljun og það sé bara eitthvað sem hans menn séu að klikka á.

 

„Ég er ekki maður sem trúir á tilviljanir og þetta er bara okkur sjálfum að kenna. Við verðum að mæta betur af fullum krafti á heimavelli, tækla þá og sýna að þeir eru ekki velkomnir hérna. Að elta tveggja marka forystu gegn liði eins og KR er mjög erfitt,"

 

KA-mönnum hefur gengið illa að skora í síðustu leikjum en boltinn rataði tvívegis inn í netið hjá þeim í dag. Tufa hefur engar áhyggjur af því þó mörkin hafi ekki látið sjá sig og telur sína menn hafa spilað vel þrátt fyrir marka- og stigaleysi.

 

„Ég hef ekki haft áhyggjur þó við skorum ekki í þessum síðustu tveimur leikjum því við erum að spila vel og skapa færi. Við fengum nóg færi til að skora mörk, það sem ég er ósáttur með er að við gefum einföld mörk á okkur. Við erum þekktir fyrir sterkan og agaðan varnarleik og þetta er mjög ólíkt okkur."

 

„Spilamennskan hefur ekki verið vonbrigði og við höfum verið að spila vel en sækja fá stig upp á síðkastið og ég er bara mjög ósáttur með þetta. Það er samt ekkert við því að gera annað en að fara á æfingarsvæðið, vinna vel og koma sér aftur í gírinn," sagði Tufa.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×