Erlent

Yfir hundrað manns létu lífið í Pakistan þegar kviknaði í vörubíl

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Sjúkraflutningamenn flytja fórnarlömb slyssins á sjúkrahús.
Sjúkraflutningamenn flytja fórnarlömb slyssins á sjúkrahús. Vísir/AFP
Að minnsta kosti 123 létust í Pakistan þegar kviknaði í vöruflutningabíl sem innihélt olíu-farm. Vörubíllinn valt eftir að hafa ekið á of miklum hraða. Fjöldi manna voru fluttir á spítala til aðhlynningar. Þyrlur voru sendar á svæðið til að ferja burt slasaða. Sum fórnarlömb er erfitt að bera kennsl á þar sem sprengingin var það mikil. Því verður notast við DNA greiningu í sumum tilfellum. BBC greinir frá.

Atvikið átti sér stað nálægt borginni Ahmedpur East. Vörubíllinn var að ferja á milli 25 þúsund lítra af olíu. Bíllinn rann út af veginum og valt. Vegirnir á þessu landsvæði eru taldir vera mjög hættulegir þar sem lítið er hugað að innviðum í vegagerð. Einnig er algengt að fólk keyri óvarlega á þessum vegum.

Hópur fólks, sem bjó í grennd við slysið, hafði safnast saman hjá vörubílnum til að safna olíu sem lak frá bílnum. Fólkið hafði einnig samband við skyldmenni og hvatti þau til að koma og ná sér í ókeypis olíu. Lögreglu tókst ekki að hafa hemil á aðstæðum. Eldurinn kviknaði skyndilega. Talið er að fólk sem reykti sígarettur nálægt slysstað hafi átt þátt í að kveikja eldinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×