Fótbolti

Paulinho í viðræðum við Barcelona

Elías Orri Njarðarson skrifar
Paulinho í leik með Guangzhou Evergrande
Paulinho í leik með Guangzhou Evergrande visir/getty
Brasilíski miðjumaðurinn Paulinho sem leikur með Guangzhou Evergrande í Kína segir að umboðsmaður hans sé í viðræðum við Barcelona.

Paulinho sem hefur spilað í Kína síðan árið 2015 en þar áður spilaði hann í ensku úrvalsdeildinni með Tottenham Hotspur í tvö ár, frá árinu 2013 til ársins 2015.

„Það hefur verið haft samband við umboðsmann minn. Það er tilboð frá Barcelona á borðinu, það er satt og við erum að ræða saman,“ segir Paulinho í viðtali við brasilíska miðilinn Globoesporte.

Ernesto Valverde tók við stjórnartaumunum hjá Barcelona á dögunum og hann er að leitast eftir því að styrkja miðjuna í liðinu. Nafn Paulinho kemur á óvart þar sem að nafn Marco Veratti, leikmanns PSG í Frakklandi, hefur verið bendlað við Barcelona á undanförnum dögum og talið er að Valverde vilji bæta Veratti við leikmannahóp Börsunga.

Paulinho sem hefur leikið vel síðan að hann kom til Kína og Luis Scolari, þjálfari Guangzhou vill ekki missa Paulinho, en hann er með klausu í samningi sínum upp á að hann megi fara ef að tilboð upp á 40 milljónir evra berist Guangzhou.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×