Innlent

Flugmenn þreyttir á ástandinu

Margrét Helga Erlingsdóttir og Þorbjörn Þórðarson skrifar
Icelandair sagði upp 115 flumönnum.
Icelandair sagði upp 115 flumönnum. Vísir/Vilhelm
Örnólfur Jónsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna sagði í samtali við fréttastofu að flugmenn væru orðnir þreyttir á ástandinu hjá Icelandair.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair staðfesti í dag að Icelandair hafi sagt upp 115 flugmönnum auk þess sem 70 flugstjórum hefur verið tilkynnt um að þeir verði færðir niður í stöðu flugmanns næsta vetur. RÚV greindi fyrst frá þessu.

Örnólfur sagðist hafa vonast eftir því að dregið yrði úr þessum uppsögnum.

 „Við erum búnir að búa við þetta í ansi mörg ár. Það er mikil eftirspurn eftir flugmönnum og þeir eru kaldir að segja upp fólki. Það er allsendis óvíst að þeir snúi til baka þegar þeir þurfa á þeim að halda,“ segir Örnólfur.

Hann segir Icelandair hafa sagt upp 20-25% flugmönnum árlega vegna árstíðasveiflu en að í ár hafi uppsagnirnar í fyrsta skiptið farið yfir hundrað. „Þannig að það lítur út fyrir að vera meira en áður en hlutfallslega er það svipað,“ segir Örnólfur.

Upplýsingafulltrúi segir uppsagnirnar skýrast af árstíðasveiflu

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði í samtali við Vísi að það væri ekkert nýtt í þessu máli. Uppsagnirnar helgist af því að það sé meira um að vera í fluginu og ferðaþjónustunni yfir sumarmánuðina. Aðspurður neitar Guðjón því að uppsagnirnar tengist minni vexti félagsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×