Fótbolti

Aron skoraði hjá Ingvari

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Sigurðarson í leik með íslenska landsliðinu.
Aron Sigurðarson í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Getty
Aron Sigurðarson skoraði eina mark Tromsö í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Sandefjord á heimavelli.

Ingvar Jónsson ver mark Sandefjord en hann hefur verið að standa sig mjög vel fyrir nýliðana sem eru í ágætum málum með 18 stig um miðja deild. Þeir hafa þó aðeins unnið einn leik af síðustu fimm.

Aron hefur verið orðaður við Twente að undanförnu en hollenska liðið virðist mikið vilja fá hann. Ekki er þetta mark að fara að minnka áhuga Twente og lítur út fyrir að Tromsö fari að missa sinn besta mann.

Matthías Vilhjálmsson var einnig á skotskónum í dag en hann skoraði fyrsta mark Rosenborg sem vann Sogndal, 3-0. Markalaust var fram á 60. mínútu þegar Matthías skoraði en meistararnir settu þrjú mörk á sjö mínútum og gengu frá leiknum.

Með sigrinum komst Rosenborg aftur í toppsætið þar sem Viðar Ari Jónsson og félagar í Brann gerðu 1-1 jafntefli við Sarpsborg á útivelli. Viðar Ari var því miður á varamannabekknum þar sem hann hefur setið allt tímabilið.

Aron Elís Þrándarson og Daníel Leó Grétarsson voru svo báðir í byrjunarliði Álasunds sem pakkaði Odd saman, 5-1. Álasundsliðið komst upp í fjórða sætið með sigrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×