Innlent

Skimun á lungnakrabba gæti bjargað lífi fjölmargra

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Lungnakrabbamein er það krabbamein sem leggur flesta að velli á Íslandi
Lungnakrabbamein er það krabbamein sem leggur flesta að velli á Íslandi Vísir/Getty
Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir, er einn af fimmtán höfundum greinar þar sem mælt er með reglulegri skimun lungnakrabbameins á Norðurlöndunum.

Bandarísk rannsókn sýnir að skimun hafi lækkað dánartíðni um tuttugu prósent enda góður árangur af lyfjameðferð og skurðaðgerð ef meinið greinist snemma.

„Lungnakrabbi hefur ekki fengið þá athygli sem á skilið," segir Tómas. „Þetta er annað algengasta krabbameinið í báðum kynjum á Íslandi og leggur fleiri að velli en brjósta-, blöðruhálskirtils- og ristilkrabbamein samanlagt."

170 fá lungnakrabbamein á hverju ári og mjög stór hluti lætur lífið af sjúkdómnum.

Tómas telur litla athygli tengjast því að níutíu prósent sjúklinga fá meinið vegna reykinga og hafi því haft áhrif á veikindi sín.

„Það verður auðvitað að bjóða öllum bestu meðferð og í þessu tilfelli er mikilvægast að greina meinið snemma og gera skurðaðgerð."

Í grein læknanna er mælt með skimun hjá 55-80 ára gömlu fólki sem hefur reykt í þrjátíu ár, reykja enn eða hættu á síðustu fimmtán árum. Um tíu þúsund Íslendingar passa í þann ramma og er tækjabúnaður nú þegar til staðar. Skimun kostar um það bil tuttugu þúsund krónur en það er líka ávinningur, fyrir einstaklinginn sjálfan og þjóðfélagið.

„Við teljum að þetta muni spara þjóðfélaginu peninga. Við náum að greina sjúklinga fyrr og losnum þá við mjög dýra lyfjameðferð," segir Tómas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×