Innlent

Hæstiréttur „gríðarlega tregur“ til að fjalla um félagsleg réttindi

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Hæstiréttur hefur ekki fallist á málsástæður gegn ríkinu á grundvelli 76. greinar stjórnarskrárinnar, sem kveður á um rétt manna til aðstoðar vegna meðal annars sjúkleika, frá því í Öryrkjabandalagsdómnum árið 2000.
Hæstiréttur hefur ekki fallist á málsástæður gegn ríkinu á grundvelli 76. greinar stjórnarskrárinnar, sem kveður á um rétt manna til aðstoðar vegna meðal annars sjúkleika, frá því í Öryrkjabandalagsdómnum árið 2000. vísir/stefán
Hæstiréttur Íslands hefur ekki fallist á málsástæður gegn ríkinu á grundvelli 76. greinar stjórnarskrárinnar, sem kveður á um að öllum skuli tryggður réttur til aðstoðar vegna meðal annars sjúkleika, frá því árið 2000. Doktorsnemi í lögfræði við Harvard-háskóla segir nýjustu dóma réttarins benda til þess að hann sé „gríðarlega tregur“ til þess að fjalla um félagsleg réttindi. Dómstólum sé heimilt og skylt að leggja efnislegt mat á það hvort stjórnarskrárvarin réttindi séu virt í raun og veru. Ef Hæstiréttur hverfi frá því hlutverki sínu sé hugmyndin um lagalega vernd félagslegra réttinda í verulegri hættu.

Lögmaðurinn Kári Hólmar Ragnarsson, sem er einn af eigendum lögmannsstofunnar Réttar og auk þess doktorsnemi við Harvard-háskólann, fjallar um nýja dómaframkvæmd um félagsleg réttindi í grein í nýjasta tölublaði Úlfljóts, tímarits laganema við Háskóla Íslands. Hann segir framkvæmdina gefa til kynna að staða félagslegra réttinda fyrir íslenskum dómstólum sé veik og vernd þeirra hafi hrakað á allra síðustu árum.

Í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir að öllum, sem þess þurfa, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Í grein sinni rekur Kári Hólmar að Hæstiréttur hafi aðeins einu sinni fallist á málsástæðu á grundvelli ákvæðisins, en það var í hinum svonefnda Öryrkjabandalagsdómi árið 2000. Þá komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að lög frá Alþingi, sem fólu í sér skerðingu örorkubóta vegna tekna maka, brytu í bága við umrætt ákvæði stjórnarskrárinnar.

Kári Hólmar Ragnarsson, doktorsnemi í lögfræði við Harvard-háskóla
Hann segir að í kjölfar dómsins hafi verið höfð uppi stór orð um að beiting dómstóla á félagslegum réttindum gæti leitt af sér stórvægilegar breytingar á stjórnskipuninni. Sá spádómur hafi hins vegar ekki ræst. „Þótt fjöldi mála þar sem ákvæðinu er borið við hafi aukist á síðustu árum, þá hefur Hæstiréttur hafnað öllum kröfunum. Í ýmsum tilvikum hefur Hæstiréttur ekki einu sinni tekið afstöðu til ákvæðisins, þótt því sé borið við,“ segir hann.

Héraðsdómur hefur einu sinni fallist á málsástæðu á grundvelli 76. greinarinnar, árið 2015, en í þeim dómi var talið að óheimilt hefði verið að synja sjón- og heyrnarskertri konu um endurgjaldslausa táknmálstúlkun á grundvelli fjárskorts. Slík synjun var talin brjóta í bága við rétt konunnar til aðstoðar samkvæmt 76. greininni. Dómnum var ekki áfrýjað.

Kári Hólmar segir umræddan dóm héraðsdóms ljós í myrkrinu fyrir þá sem tala fyrir því að dómstólar beiti stjórnarskránni til þess að vernda félagsleg réttindi. Í dómnum hafi rétturinn beitt þeim mælikvarða sem þróaður var í Öryrkjabandalagsdómnum, þ.e. að meta annars vegar hvort lágmarksréttindi séu tryggð, án þess að skilgreina endilega hver þau séu, og hins vegar hvort fyrirkomulag löggjafarinnar sé málefnalegt.

Meiri möguleikar virðast vera á því að fá félagsleg réttindi viðurkennd fyrir dómstólum í gegnum önnur stjórnarskrárákvæði, einkum jafnræðisreglu 65. greinar og hugsanlega eignarréttarákvæði 72. greinar, að sögn Kára Hólmars.

Hann segir ekki samræmi vera á milli dóma hvað varðar aðferðir og mælikvarða við mat á því hvort brotið sé gegn 76. greininni. „Nýjustu dómar Hæstaréttar benda til þess að rétturinn sé gríðarlega tregur til þess að fjalla efnislega um félagsleg réttindi og gefa í skyn að grundvallarálitaefni á þessu sviði, til dæmis um fjárhæð örorkulífeyris, falli nær alfarið utan valdsviðs dómstóla. Þannig hefur Hæstiréttur í raun skipað fjárstjórnarvaldi löggjafans ofar stjórnskipulegum réttindum.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×