Erlent

Sex látnir og sextán saknað í Kólumbíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Farþegar hafa kvartað yfir því að hafa ekki fengið björgunarvesti.
Farþegar hafa kvartað yfir því að hafa ekki fengið björgunarvesti. Vísir/AFP
Sex eru látnir og minnst sextán er saknað eftir að skipið Almirante sökk í uppistöðulóni í Kólumbíu í gær. 133 hefur verið bjargað en um 170 manns voru um borð.  Farþegar hafa kvartað yfir því að þeir hafi ekki fengið björgunarvesti þegar ferjan, sem var á fjórum hæðum, sökk á minna en fimm mínútum.

Báturinn sökk á siglingu á Penol lón­inu í bæn­um Guatapé sem er vinsæll bær meðal ferðamanna. Almirante var nálægt bryggju þegar skipið sökk. Samkvæmt frétt BBC komu stjórnendur annarra skipa fljótt á vettvang og björguðu fólki úr sjónum og af Almirante.

Sérþjálfað björgunarlið og þyrlur frá hernum héldu síðan áfram leit í alla nótt. Enn er óljóst með hvað olli því að ferjan sökk en hún var nýlögð af stað þegar slysið varð.

Mörg börn voru um borð í skipinu samkvæmt AFP fréttaveitunni, en samkvæmt embættismönnum á svæðinu eru þau öll hólpin. Talið er að allir hinna látnu séu frá Kólumbíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×