Erlent

Skildi börnin eftir út í bíl til að kenna þeim lexíu

Gunnar Reynir Valþórsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Hitinn í Texas þennan dag fór í um 36 gráður.
Hitinn í Texas þennan dag fór í um 36 gráður. Vísir/GEtty
Kona í Texas hefur verið ákærð vegna dauða tveggja barna hennar en þau fundust látin, læst inni í bíl fjölskyldunnar í miklum hita í lok maí. Konan, sem heitir Cynthia Marie Randolph og er 24 ára gömul, hefur játað að hafa ætlað að kenna tveggja ára dóttur sinni lexíu með því að læsa hana inni í bílnum eftir að telpan hafði neitað að fara út úr bílnum eftir að hún kom að börnunum að leik.

Atvikið átti sér stað heima hjá fjölskyldunni og móðirin sofnaði skömmu síðar í tvo til þrjá tíma. Hún er einnig sögð hafa neytt fíkniefna áður en hún sofnaði. Stúlkan og sextán mánaða gamall bróðir hennar fundust síðan bæði látin en hitinn í Texas þennan dag fór í um 36 gráður.

Í yfirlýsingu lögreglunnar til Reuters fréttaveitunnar segir að Randolph hafi brotið rúðu í bílnum til þess að reyna að láta atvikið lýta út sem slys. Upprunalega sagði hún lögregluþjónum að hún hefði verið að brjóta saman þvott og horfa á sjónvarpið og að börnin hefðu verið að leik fyrir utan. Hún hafi síðan tekið eftir því að börnin væru horfin og hafi komið að þeim í bílnum.

Þá mun hún hafa breytt sögu sinni ítrekað við yfirheyrslur og á endanum játað að hafa læst börnin inni til að kenna þeim lexíu.

Samkvæmt upplýsingum frá síðunni Noheatstroke.org hafa fjórtán börn látið lífið vegna hita á þessu ári, eftir að hafa verið skilin eftir í bíl. Frá árinu 1998 hafa 714 börn dáið við þessar aðstæður. Veðurfræðingur við San Jose State háskólann í Kaliforníu heldur utan um þessar tölur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×