Erlent

Stærsta herskip Breta heldur úr höfn

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
„Þú sérð ekki kafbáta, en þessi skip eru mjög sýnileg tákn valds.“
„Þú sérð ekki kafbáta, en þessi skip eru mjög sýnileg tákn valds.“ Vísir/AFP
Stærsta herskip sem Bretar hafa nokkru sinni smíðað leggur úr höfn í fyrsta sinn í dag en næstu tvö árin mun skipið undirgangast ýmislegar prófanir. Skipið heitir Queen Elizabeth og er flugmóðurskip sem smíðað var í Skotlandi og hefur smíðin tekið átta ár. Flugdekk skipsins gæti rúmað þrjá fótboltavelli.

Skipið er skírt í höfuðið á Elísabetu fyrstu Englandsdrottningu og er það annað herskipið í sögunni sem ber nafn hennar. Allt að þúsund manns verða í áhöfn skipsins. Systurskip hennar er einnig í smíðum, Prince of Wales, en það er komið skemur á veg.

Smíði skipanna tveggja kostar rúmlega sex milljarða punda. Verkið hefur dregist á langin og spurningar hafa komið upp um hvort að sjóherinn konunglegi hafi efni á því að kaupa flugvélar til að hafa um borð í skipinu.

Samkvæmt frétt BBC er skipið fyrsta flugmóðurskip konunglega sjóhersins frá því að HMS Ark Royal var rifið í brotajárn árið 2010.

Yfirmaður skipsins, Jerry Kydd, segir skipið mikilvægt fyrir orðspor Bretlands sem sjávarveldi. Fátt annað hafi jafn mikilvæga táknræna stöðu en flugmóðurskip.

„Þú sérð ekki kafbáta, en þessi skip eru mjög sýnileg tákn valds.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×