Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur R. - Víkingur Ó. 2-0 | Alex Freyr gerði gæfumuninn í nafnaslagnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik liðanna í kvöld.
Úr leik liðanna í kvöld. vísir/andri
Alex Freyr Hilmarsson skoraði bæði mörk Víkings R. í 2-0 sigri á nöfnum þeirra úr Ólafsvík í 9. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld. Víkingar hafa því náð í 11 stig í fyrstu fimm leikjunum undir stjórn Loga Ólafssonar.

Leikurinn var afar tíðindalítill í fyrri hálfleik og fátt markvert gerðist.

Eftir fimm mínútna leik í seinni hálfleik kom Alex Freyr heimamönnum yfir með skoti beint úr aukaspyrnu sem Cristian Martinez Liberato, markvörður gestanna, hefði átt að verja.

Alex Freyr gulltryggði svo sigur Reykjavíkur-Víkinga þegar hann skoraði annað mark þeirra á 84. mínútu.

Með sigrinum komst Víkingur R. upp í 5. sæti deildarinnar og jafnaði Stjörnuna og FH að stigum. Ólsarar eru áfram í botnsætinu með sjö stig.

Af hverju vann Víkingur R.?

Alex Freyr gerði gæfumuninn í þessum leik. Hann skoraði bæði mörkin og er alls kominn með fjögur mörk í Pepsi-deildinni, einu marki minna en hann skoraði allt síðasta sumar. Alex Freyr minnir reglulega á sig og er einn vanmetnasti leikmaður deildarinnar.

Varnarleikur heimamanna var einnig góður í leiknum þótt sóknarleikur gestanna hafi ekki valdið þeim miklum heilabrotum.

Þessir stóðu upp úr:

Alex Freyr, augljóslega. Sýndi enn og aftur hversu góður hann er. Vörn Reykjavíkur-Víkinga var einnig traust eins og áður sagði.

Kwame Quee var langhættulegasti leikmaður gestanna og ógnaði nokkrum sinnum með kröftugum sprettum. Öflugur leikmaður sem á auðvelt með að leika á mótherja.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur liðanna var ekki burðugur lengst af í leiknum. Heimamenn voru mikið með boltann í fyrri hálfleik en hreyfðu hann of hægt og það vantaði allan slagkraft í sóknir þeirra.

Fyrir utan sprettina hjá Quee var lítið að frétta í sóknarleik Ólsara sem virðast eiga erfitt með að koma til baka eftir að hafa lent undir.

Hvað gerist næst?

Funheitir Reykjavíkur-Víkingar fá Eyjamenn í heimsókn í 8-liða úrslitum Borgunarbikarsins á sunnudaginn. Næsti deildarleikur liðsins er ekki fyrr en eftir tvær vikur en þá mætir það ÍA.

Ólsarar eiga afar erfiða dagskrá fyrir höndum en í næstu fimm umferðum mæta þeir FH, ÍA, Val, KR og Grindavík.

Einkunnir:

Víkingur R. (4-3-3):
Róbert Örn Óskarsson 6 - Dofri Snorrason 6, Alan Lowing 7, Halldór Smári Sigurðsson 6, Ívar Örn Jónsson 7 - Milos Ozegovic 6, Arnþór Ingi Kristinsson 6, Alex Freyr Hilmarsson 8* (maður leiksins - Vladimir Tufegdzic 5 (84. Viktor Bjarki Arnarsson -), Ragnar Bragi Sveinsson 5 (67. Erlingur Agnarsson 5), Ivica Jovanovic 5 (72. Davíð Örn Atlason -).

Víkingur Ó. (5-3-2): Cristian Martinez Liberato 4 - Alfreð Már Hjaltalín 5, Ignacio Heras Anglada 6, Tomasz Luba 5, Aleix Egea 5 (68. Pape Mamadou Faye 5), Emir Dokara 5 - Gunnlaugur Hlynur Birgisson 5, Eric Kwawka 6, Kwame Quee 7 - Guðmundur Steinn Hafsteinsson 5, Þorsteinn Már Ragnarsson 5.

Bjarni Guðjónsson aðstoðarþjálfari á hliðarlínunni í kvöld.vísir/andri
Logi: Get ekki annað en verið ánægður

Logi Ólafsson, þjálfari Víkings R., sagði að sínir menn hefðu tekið sig taki í hálfleik gegn nöfnum sínum úr Ólafsvík í kvöld.

„Það sem aflaga fór í fyrri hálfleik var að hreyfingar okkar í uppspilsþættinum voru rangt tímasettar. Þar af leiðandi náðum við ekki að opna þá neitt, vorum frekar daufir og hlupum lítið,“ sagði Logi eftir leik.

„Þetta lagaðist í seinni hálfleik. Við hlupum meira og tímasettum hlaupin okkar betur.“

Víkingar skoruðu snemma í seinni hálfleik en staðan hélst 1-0 allt þangað til sex mínútur voru til leiksloka. Logi viðurkennir að hafa ekki verið í rónni á meðan munurinn var bara eitt mark.

„Já, ég var alltaf smeykur. Þeir eru með stórhættulega menn þarna fram á við. Auðvitað er maður alltaf hræddur,“ sagði Logi.

Síðan að hann tók við hafa Víkingar halað inn 11 stig og eru komnir upp í 5. sæti Pepsi-deildarinnar. Logi er að vonum ánægður með hvernig til hefur tekist.

„Það er ekki hægt að vera annað en ánægður með hvernig hefur gengið. Strákarnir hafa svarað kallinu og virkilega lagt sig fram. Við erum að gera þetta sem lið og það breytir öllu,“ sagði Logi.

En var hann orðinn ryðgaður í þjálfarafræðunum eftir nokkurra ára hvíld?

„Ég var ryðgaður í upphafi en þurfti ekki að grafa lengi til að ná þessu fram. Svo er ég með frábæra menn með mér, Bjarna Guðjónsson og [Hajrudin] Cardakilja. Þeir kunna sitt fag,“ sagði Logi að lokum.

Ólsarar í Víkinni.vísir/andri
Ejub: Milljón sinnum búinn að segja markvörðunum að passa sitt horn

Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ó., var þokkalega sáttur með spilamennsku sinna manna í kvöld. Úrslitin voru honum þó ekki að skapi.

„Leikurinn var í fullkomnu jafnvægi allan tímann og allt sem við lögðum upp með fyrir leikinn gekk fullkomlega upp,“ sagði Ejub eftir leikinn í kvöld.

„Ég var að vonast til að við fengjum meiri möguleika á að refsa þeim eftir því sem liði á seinni hálfleikinn. Það var mjög sárt að tapa þessum leik. Ég vissi að liðið sem myndi fyrst gera mistök myndi tapa þessum leik.“

„Í fyrri hálfleik gerðist ekkert, við spiluðum taktískt mjög vel. Svo töpuðum við boltanum illa í upphafi seinni hálfleiks, fengum á okkur aukaspyrnu og þetta var mjög ódýrt. Við komust svo aftur inn í leikinn og Víkingarnir voru ekkert líklegri en við. En svo kemur annað markið og þá var þetta mjög erfitt. Mér fannst við eiga að fá eitthvað út úr þessum leik.“

Cristian Martinez Liberato, markvörður Ólsara, leit ekkert alltof vel út í fyrra markinu. Ejub segir að hann hefði átt að gera betur í því.

„Mér sýndist það en ég ætla að sjá í sjónvarpinu hvort boltinn fór í einhvern. Ég er búinn að segja markvörðunum mínum milljón sinnum að passa sitt horn í aukaspyrnum,“ sagði Ejub.

„Auðvitað á hann að verja þetta betur og kannski áttum við að loka betur með varnarveggnum. Svo áttum við aldrei að tapa boltanum þarna. Hafsentinn minn átti að spila boltanum á senterinn og málið dautt.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira