Fótbolti

Tuttuguogfimm ár síðan Danir urðu Evrópumeistarar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dönsku leikmennirnir fagna.
Dönsku leikmennirnir fagna. vísir/getty
Peter Schmeichel minnist þess á Twitter að í dag eru 25 ár síðan Danir urðu Evrópumeistarar í fótbolta.

Sigur Dana á EM 1992 er einn sá óvæntasti í fótboltasögunni enda átti danska liðið upphaflega ekki að vera með á mótinu.

Dyrnar opnuðust fyrir Dani þegar Júgóslavía var dæmd úr leik vegna stríðsins þar í landi. Dönsku leikmennirnir voru kallaðir heim úr sumarfríi og til Svíþjóðar þar sem EM fór fram.

Danir fóru rólega af stað í riðlakeppninni og voru aðeins með eitt stig eftir fyrstu tvo leikina. En danska liðið tryggði sér sæti í undanúrslitunum með sigri á því franska í lokaumferð riðlakeppninnar.

Í undanúrslitunum mættu Danir Evrópumeisturum Hollendinga í Gautaborg. Staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var 2-2 og því réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni.

Danir skoruðu úr öllum fimm spyrnum sínum en Schmeichel varði spyrnu Marcos van Basten og því fór danska liðið í úrslit.

Í úrslitaleiknum, sem fór einnig fram á Ullevi í Gautaborg, mættu Danir Þjóðverjum.

Leikurinn var 18 mínútna gamall þegar John Faxe Jensen kom Danmörku yfir með föstu skoti fyrir utan teig.

Þjóðverjar sóttu meira í leiknum en Schmeichel var frábær í marki Dana. Hann varði t.a.m. tvisvar stórkostlega frá Jürgen Klinsmann.

Þegar 12 mínútur voru til leiksloka gulltryggði Kim Vilfort sigur Danmerkur með laglegu marki. Lokatölur 2-0 og Lars Olsen, fyrirliði Dana, lyfti Evrópubikarnum í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×